Dýra og pödduheimurinn gerir uppreisn

Jæja góðu lesendur.....

Þannig er nú mál með vexti hjá meyjunni þessa stundina að við höfum flutt okkur í vinnurýmið hans Victors á meðan verið er að rústa íbúðinni okkar og sameina hana við íbúðina fyrir neðan okkur sem við vorum að fjárfesta í. 

Við fjölskyldan komum okkur vel fyrir í stúdíóinu hans Victors í febrúar og höfum búið hér í sátt og samlyndi við alheiminn þangað til nú.....

Á mánudaginn í síðustu viku vorum við mæðgurnar í kósý upp í rúmi að horfa á bíómynd þegar yngri daman biður mig um að fara með sér á klósettið....við skutlum okkur fram úr rúminu, opnum baðherbergishurðina og kveikjum ljósið og viti menn....6cm langur kakkalakkafáviti skaust undan hurðina...við endasendumst aftur upp í rúm og hringdum í heimilisföðurinn sem var með slökkt á símanum þannig að við bara biðum í spreng í 2 tíma þar til pabbinn kom heim og drap skepnuna.....

Eftir að öllu var snúið við og gengið úr skugga um að ekki væru fleiri meindýr í felum róaðist meyjan og lífið hélt áfram...þar til á föstudaginn langa....við mæðgur vöknum eldhressar og förum saman inn á bað þegar sú yngri rekur upp skaðræðisöskur og við það endasendumst við báðar AFTUR upp í rúm....annar kakkalakki nema núna skreið hana yfir löppina á dótturinni og var um 8cm á lengd....nú var heimilisfaðirnn heima og kvikindið var drepið samstundis...

Meyjan hljóp út í búð og keypti tvo risabrúsa af eitri og 12 gildrur....nú var spreyjað eins og heimurinn væri að enda kominn og við hálfdópuð af kakkalakkaspreyi.....og enn komu þeir...hálfdauðir en þeir birtust....Nú fylgir heimilisfaðirinn prinsessunum sínum á klósettið og fer og athugar alla króka og kima á morgnana, svo við séum svona hálfrólegar....

En þetta er nú ekki öll sagan ....ó nei....

Í dag ákvað meyjan að drífa sig í ræktina þar sem búið er að liggja í óhollustinni alla páskana. Ég er vön að labba í ræktina héðan úr stúdíóinu og uni mér vel að labba og sleppa við að leggja bílnum...Ég tek það fram að ég er ein á götunum þegar ég labba af stað en fólk er að komast á kreik þegar ég legg af stað heim.... Í morgun er ég á rólegri göngu upp götuna sem liggur að stúdíóinu, (smá brekka), þegar ég heyri þessi skaðræðisöskur efst í götunni og hóp af fólki sem öskrar eins og það eigi lífið að leysa.... Ég stansa og horfi á þau þegar allt í einu kemur á eftir hópnum þessi RISA ROTTA á fleygiferð niður brekkuna í átt að mér.... Nú hvað gerir maður þegar svona gerist, finnur sér felustað nema það var allt lokað. Meyjan sér opinn vörubíll upp á gangstéttinni og ég skutla mér inn í vörubílinn og rígheld mér í einhverja stöng í von u að rottan leiti ekki inn í bílinn.....

Hópurinn heldur áfram að öskra og allt í einu heyri ég að einhver segir að hún sé farin. Ég stekk út með hjartað í buxunum og hleyp heim, auðvitað hélt ég að rottan væri á eftir henni....skýst inn í stúdíóið og loka á eftir mér....á móti mér tekur eiginmaðurinn sem meig í sig úr hlátri þegar ég í öngum mínum lýsi þessu ævintýri mínu....hann er enn að hlægja.

Hvað gera meyjur nú......ég get svarið það að ef ég geng aftur í ræktina þá verð ég með barefli með mér....annars á ég eftir að gera það upp við mig hvort ég fer ekki bara á bíl  þessa 10metra í ræktina....

 

Nú vona ég að dýr og meindýr láti mig í friði þessa tvo mánuði sem ég á eftir hérna...ef ekki þá læt ég leggja mig inn.....undecided

 


Pöddupanik....

Heil og sæl veriði öll sömul.

Já það er nokkuð langt frá síðustu færslu en ég gat ekki hamið mig að segja frá meyjunni og pöddupanikinu sem fylgir henni.

Dagurinn var yndislegur í alla staði. Húsið þrifið í morgun með sól í hjarta og tilhlökkun að vera að fara til Íslands eftir um 10 daga. Skroppið var í búð og verslað inn fyrir helgina, farið á kaffihús með vinkonu og spjallað um ferð í Disney....

Því næst lallaði meyjan heim og eldaði mat handa ungunum sínum sem komu heim úr skólnum um tvö og aldrei þessu vant var ekki pirringur, rifrildi eða heimsendir yfir matnum sem ég eldaði. 

Allir saddir og sælir smjöttuðu á ís eftir matinn og svo var skellt sér í sund. 

Það er nú föstudagur og um að gera að nota sólinni þannig að meyjan dreif alla familíuna á veitingastað og fékk sér ískaldan bjór á meðan dömurnar hjólaskautuðu á aðalgötunni í bænum sem var lokuð í klukkutíma af lögreglu til að krakkar gætu rúntað hana fram og tilbaka á hjólaskautum. Því næst bættust góðvinir í hópinn og um 22:00 var ég á leið heim með mín kríli og kríli vinanna. Fjórir hlæjandi skrípalingar liðuðust inn um útidyrnar og pizzu skellt í ofninn. 

Þá byrjaði stuðið....meyjan fór út að hengja upp sundfötin og viti menn......svört stór padda sem í mínum huga var ekkert annað en KAKKALAKKI hljóp eins og fætur toguðu eftir gólfinu á veröndinni minni. Fallegu veröndinni minni þar sem ég fæ mér juratte og rauðvín í síðdegisbirtunni á Spáni. Taugaveiklun er veikt orð yfir atburðarásinna sem fylgdi hjá meyjunni við mikil hlátrasköll frá fjórum ungum kroppum, þar á meðal hugrakkur 10 ára strákur sem tók sig til og fór út að drepa skepnuna.....

Þar stöðvaðist ekki panikið...ó nei...meyjan er nú ekki þekkt fyrir að slaka bara á og bíða eftir næstu pöddu.... mikil upplýsingavinna hófst á netinu, hvernig væri hægt að drepa kakkalakkaPLÁGU....af því jú það var sko heill EINN kakkalakki, sama sem PLÁGA í mínum huga.... Eftir 101 ráð og milljón skilaboð til eiginmannsins sem var að reyna að klára að mála í vinnunni sinni var heimtað að hann kæmi heim að bjarga eiginkonunni frá dauða andstyggilega kakkalakkanum sem lá með fætur upp í loft út á verönd. 

Meyjan tók sig nú til á meðan beðið var eftir eiginmanninum og þreif allt hátt og lágt, inn í skápa og öllum niðurföllum lokað. Krakkarnir kvörtuðu yfir hita inn í lokaðri íbúð í 27 stiga hita en NEI það mátti ekki opna neina hurð.....hann gæti lifnað við.....

Ryksugað var alla skápa, hent opnum matvörum, bækur dustaðar (þeir gætu verið á milli blaðsíðna) og sprautað eitri inn í allar glufur sem fyrir finnast í íbúðinni.....Loksins kom karlinn heim og lallaði út á verönd þar sem ég lokaði hann úti með dauða kakkanum og beið.....

Hann snéri sér við með fægiskófluna og hristi hausinn.....

Þetta var svört KRYBBA....paddann sem kemur fljúgandi og gerir þetta hljóð sem við heyrum alltaf á kvöldin í útlöndum....

Meyjan andaði léttar, það var kannski ekki alveg plága á heimilinu, en hurðir og gluggar eru enn lokaðir..

 

Takk takk og góða nótt..


Jólasaga

Gleymir jólasveinninn mér í ár? 

 

Davíð fylgdist með bekkjarfélögum sínum hreykja sér af nýrri úlpu frá New York, Spiderman húfu frá Glasgow og jólasveinablýöntum frá Boston. Guli uppyddaði blýanturinn hans lá við hliðinni á látlausri stílabókinni sem búið var að rífa úr fyrstu blaðsíðurnar, þær höfðu verið notaðar í fyrra en bókin tiltölulega heil.

  Úti kyngdi niður snjó og hann vissi að í kvöld myndu krakkarnir setja skóinn út í glugga. Hann fann hvernig snjóboltinn í maganum stækkaði og þrýsti sér upp hálsinn. Nú færi kennarinn að spyrja hvað þau hefðu fengið í skóinn.

  Davíð róaðist við hægan andvarann sem vaggaði snæviþöktum greinum trjánna. Svo látlaust, svo vært. Það voru þrettán dagar til jóla og sjö ára börn iðuðu í skinninu eftir ljúfum og hlátursríkum tíma framundan. Að vissu leyti hlakkaði hann líka til, mamma fengi frí í vinnunni og þau myndu borða saman kvöldmat. Tár laumaðist niður kinnina sem hann var fljótur að þerra burt með hnökróttri peysuerminni.

  Skólanum lauk með áreynslulausri kveðju kennarans sem minnti á að setja skóinn út í glugga og fara snemma að sofa. Hann klæddi sig í úlpuna sem hann hafði fengið gefins í fyrra og dró húfuna sem mamma hafði prjónað handa honum um síðustu jól niður ennið. Hún var græn, uppáhaldsliturinn hans.

  Það marraði í snjónum undan gúmmístígvélunum sem hleyptu kuldanum inn og bitu í tærnar. Það var hljóðlátt og Davíð virti fyrir sér regnbogalitaða gluggana, kanillyktina sem laumaði sér út um þá og krakka sem voru að lauma skónum í gluggasyllurnar. Leiðin heim var angurvær og rólynd. Friður umlukti hjarta Davíðs sem sló í takt við göngu hans. Hann náði í lyklana sem voru þræddir upp á grænt lopaband og stakk þeim í skrána.

  Einmanaleg íbúðin bauð hann velkominn. Hann raðaði blautum stígvélunum á mottuna við innganginn svo þau myndu ekki bleyta gólfið, hengdi upp úlpuna sína á lítinn snaga og lagði húfuna á ofninn svo hún myndi þorna. Inn í eldhúsi glitti á gamalt aðventuljós sem mamma hafði fengið frá nágranna af því ein pera var biluð, blikkaði endalaust. Hann settist á koll og borðaði samlokuna sem mamma hafði útbúið áður en hún fór til vinnu. Á veggnum hékk útsaumuð mynd af jólasveinunum þrettán. Skyldu þeir koma til mín í ár, hugsaði Davíð og beit í þurra samlokuna.

                                                  ­~~~~~~~~

Kári kom askvaðandi inn heima hjá sér og blautu kuldaskórnir endasentust fram á nýlagt parketið. Nýja úlpan endaði í leðursófanum og húfan fór sömu leið.

– Kári minn gakktu betur um elskan, þú veist að jólasveinninn er farinn að fylgjast með. Mamma hengdi upp úlpuna og raðaði kuldaskónum á skógrindina inn í forstofu.

– Ég veit mamma, geri það á eftir, ég þarf að setja skóinn út í glugga svo ég gleymi því ekki. Á ég að setja stígvél eða spariskó?

– Þú ræður því elskan.

  Kári stillti upp einu stígvéli og svörtum spariskó í gluggakistuna, stundum var betra að hafa tvo. Hann brosti og andaði að sér piparkökuilminum sem liðaðist inn um herbergisdyrnar eins og óþekkur ormur. Herbergið var uppljómað af grænni seríu sem pabbi hafði hengt yfir rúmið hans og í glugganum lýsti hvítt jólatré upp skammdegið. Innan úr stofu, þar sem herra grænn og fröken rauður höfðu hertekið rýmið, ómaði jólatónlist úr hljómtækjunum og það snarkaði í tveimur kertum sem táknuðu aðventuna.

  – Komdu að fá þér smákökur Kári minn.

  Mamma kallaði en hann nennti ekki að borða þessar smákökur, mamma bakaði svo mikið og núna langaði hann að leika við nýja Spiderman karlinn sem amma hafði komið með frá Spáni í sumar. Hann leiddi köll móður sinnar hjá sér og týndi sér í ímynduðum heimi ómennskra vera.

                                                  ~~~~~

Davíð sat á gólfinu inn í herbergi og gerði músastiga úr gömlum tímaritum sem hann hafði sankað að sér. Því litríkari sem þau voru, því jólalegri. Hann ætlaði að gleðja mömmu sína með því að vera búin að skreyta stofuna þegar hún kæmi heim í kvöld.

  Það surgaði í gömlu útvarpinu. Honum heyrðist þetta vera sígilt jólalag sem mamma hafði stundum sungið en var ekki viss. Hann leit út í glugga þar sem strigaskór lá skakkur á syllunni. Það var gat á tánni en hann yrði að duga. Jólasveinninn gleymdi stundum að setja í skóinn hans Davíðs en mamma sagði að það væri af því að hann þyrfti að gleðja svo marga krakka að stundum kæmist hann ekki í öll hús. Hann var samt sá eini sem gleymdist stundum. Það var erfitt að segja frá því þegar kennarinn spurði hvern og einn hvað þau hefðu fengið frá jólasveininum. Stundum skrökvaði hann til þess að óvelkomin athyglin staldraði ekki við hjá honum.

  Á gólfinu var samtíningur af leikföngum sem mamma kom með heim úr vinnunni. Alltaf hljómaði hún jafn hissa þegar hún birtist seint á kvöldin með poka fullan af dóti.

  – Sjáðu hvað hún Margrét í vinnunni kom með handa þér Davíð minn.

  Þetta var yfirleitt mjög flott dót en stundum laumaðist með lítil Barbie dúkka eða bleikt PetShop dýr. Davíð leyfði þeim samt að vera með í leiknum.

                                                  ~~~~

  – Kári minn, veldu eitt leikfang sem þú ert hættur að leika þér með og settu það í þennan skókassa. Við ætlum að gefa það einhverjum sem á ekki mikið. Mamma var komin inn í herbergi til Kára þar sem hann var umkringdur gúmmískrímslum og ofurkörlum. Sumir voru undir rúminu að velta sér upp úr ryki og aðrir voru á botni dótakassans.

  – Nei mamma ég á alla þessa karla.

  Mamma útskýrði fyrir honum að á jólunum væru margir sem ættu erfitt og sérstaklega börn. Eftir miklar vangaveltur skreið Kári undir rúm og dustaði rykið af grænni risaeðlu sem hann mundi ekki eftir að hafa átt. Mamma þreif hana og pakkaði ofan í skókassa umvafinn snjókarlapappír. Hún merkti hann strákur sjö ára og setti hann í poka inn í stofu.

  – Hvað er í þessum poka mamma? Kári skyldi ekki af hverju það var svona mikið í honum. Ónotuð úlpa sem hann hafði ekki passað í, blýantapakki með hoppandi jólasveinum og stílabók í stíl, box með glænýjum piparkökum, náttföt sem honum hafði fundist ljót og ekki viljað vera í og allskyns matarvörur.

  – Kári minn, jólasveinninn getur ekki séð um alla. Stundum þarf hann aðstoð.         – Já en mamma þú gefur ekkert nammið okkar er það?

                                                  ~~~~

Úti hélt áfram að kyngja niður snjó og trén áttu erfitt með að halda sér uppi undan þunga hans. Það yrði erfitt fyrir mömmu að komast heim úr vinnunni í kvöld. Davíð var að hita upp kjötbollur í örbylgjuofninum. Hann var búin að lesa og skrifa í sögubókina sína um Stekkjastaur, hann var væntanlegur í kvöld. Hann settist við eldhúsborðið og borðaði kjötbollurnar sínar, snéri perunni í aðventuljósinu til þess að hún hætti að blikka og það tókst. Hann sá inn um uppljómaðan gluggann á íbúðinni á móti hvar fjölskyldan var að setjast til kvöldverðs. Mamma færi að koma heim og hann hlakkaði mikið til. Hann fór inn í stofu og virti fyrir sér fagurlega skreytta stofuna þar sem úði og grúði af músastigum úr allskyns letri og pappírsgerð. Hann vaskaði upp eftir sig og gekk frá upplitaða plastdisknum sínum.

                                                  ~~~~

  Aðfangadagur jóla rann upp. Tónlistin ómaði, kertin leiftruðu, hungrið faldi sig og skríkir barna fullkomnuðu samkvæmið.

  Á sjúskuðu teppi lá lítill drengur og teiknaði í nýja stílabók með jólasveinablýöntum sem voru nýyddaðir. Jólasveinninn gleymdi honum bara einu sinni í ár. Litli drengurinn maulaði á heimabökuðum piparkökum með kaldri mjólk. Hann hafði fengið nýja úlpu og ný náttföt í jólagjöf frá mömmu. Hún hafði líka prjónað handa honum græna lopasokka í stígvélin, honum yrði ekki kalt lengur.

  Í sófanum leið niður kinn úrvinda móður lítið tregafullt tár úttroðið af þakklæti til ókunnugs.

                                                    

 

 


Gleymum ekki um jólin

Jæja þá er komið að því sem við fjölskyldan bíðum eftir allt árið. DESEMBER. Mér finnst þetta vera yndislegasti mánuður ársins og við njótum hans út í eitt. Ferðatöskurnar fjórar, enn og aftur, eru tilbúnar á stofugólfinu fullar af jólagjöfum handa þeim nánustu. Farmiðar og vegabréf tilbúin og í dag eru spiluð jólalög í rigingunni hérna á Spáni, en hér rignir eldi og brennisteini, það er meira að segja dimmt úti. Mér til mikillar gleði því það passar ágætlega við kertjaljósin og Micahel Bublé sem syngur Have yourself að Merry little Christmas.

Skvísurnar eru búnar að vera að telja niður í tvær vikur og mamman er ekkert skárri. Þegar maður býr erlendis en er samt enn svona mikill Íslendingur í sér þá er alltaf þetta litla barnslega fiðrildi á fullu daginn áður en ég fer HEIM, þá sérstaklega í desember þar sem ég er mikið jólabarn. Pabbi búinn að skreyta og mamma búin að taka íbúðina í nefið, ekki að spyrja að því. Eftir 15 ár í landi stranda og sandala eru jólin heilög, þau verða að vera á Íslandi. Sumum finnst þetta vera vesenismánuður en mín skoðun er að ef við erum jákvæð og njótum hans pínulítið meira á hverjum degi þá er desember mánuður hlýr og friðsæll.

En eins og jólin geta verið mikil gleði á heimilum margra þá geta þau líka verið erfiðasti tími ársins. Fólk saknar þeirra sem geta ekki lengur notið jólaandans með þeim, sumir eiga lítið á milli handanna og óska þess að hlutirnir væru auðveldari. Desember mánuður er sérstaklega erfiður fyrir þá sem eiga lítið, sakna og þrá frið. Við hin sem eigum auðveldara með að njóta jólanna getum aðstoðað á marga vegu þá sem ekki eru svo heppnir. Auka faðmlag, nýbakaðar smákökur, föt sem flæða út úr skápunum okkur og eru aldrei notuð er hægt að gefa, aðstoða með matarbirgðir og gjafir handa litlum krökkum sem hafa enga hugmynd um af hverju þau eiga ekki allt sem vinir þeirra eiga. 

Missum okkur ekki í veraldlegu gæðum og njótum friðarins, hlýjunnar frá kertaljósunum og slökum á. Hugsum til þeirra sem eiga erfitt og munum eftir því að þótt við séum ekki að gefa alla mánuði ársins þá er desember mánuður sérstaklega góður til þess að taka til hendinni. 

Margt smátt gerir svo svakalega stórt.....

Sjáumst á klakanum í jólaskapi.

Christmas-quote-with-wallpaper

 

 


Bara mamma á föstudegi

Heil og sæl.

Það má segja að á hverjum degi ætla ég mér að setjast við tölvuna þegar stelpurnar eru sofnaðar og hripa niður eins og nokkur merkisatriði úr liðnum degi með annasömum skvísum. Það vill nú bara þannig til að þegar klukkan er orðin níu hérna á Spáni og stúlkurnar loksins sofnaðar þá er allt hugmyndaflug í hausnum á mér farið í frí og ég gapi á blikkandi bendilinn í word skjalinu og ekkert verður úr neinu. Nú ákvað ég bara að setjast niður eitt augnablik áður en þær fara í háttinn og athuga hvað yrði úr, ég tek fulla ábyrgð á þessari færslu sem ef til vill gæti reynst vera frekar mömmuleg og venjuleg, en hvað um það.

í dag er föstudagur, minn uppáhaldsdagur. Ég geri mér nú yfirleitt glaðan dag á föstudögum og fer og fæ mér Croissant með skinku og osti og rjúkandi nýmalaðan kaffibolla á kaffihúsi. Horfi á mannlífið og læt mig dreyma áður en dagurinn heldur áfram. En.... Mamman fór ekkert í ræktina í síðustu viku þannig að það var vel tekið á því í þessari. Nema hvað, fer í fjórða tímann í gær og viti menn, ég leggst á dýnuna til þess að gera magaæfingar og allt hringsnerist. Svimi og flökurleiki. Þetta gat náttúrulega ekki gerst í tíma hjá vinkonu minni þar sem ég gæti sest niður...nei það gerist ekki í mínum veruleika. Ég var í tíma hjá harðasta þjálfaranum sem lætur þig heyra það ef þú svo mikið sem færð þér vatnssopa of snemma. Hann lítur út eins og Mr. Proper og Jón Páll heitinn.

 Nú Meyjan ákvað að herða sig upp og rumpa þessum magaæfingum af þótt allt væri í 360 gráðum í hausnum á mér. Ekki nóg með það heldur vara ég bitastætt fórnarlamb þjálfarans til þess að sýna hópnum hvernig ætti EKKI að gera æfingarnar og varð fórnarlamb sýnikennslu. Ég veit ekki hvernig ég fór að en ég kláraði tímann, hljóp út og settist niður á gólfið í bílakjallaranum, langt frá þjálfaranum. Náði áttum og rétt náði að sveigja hjá súlunni fyrir aftan mig þegar ég bakkaði út. Þannig að, það var farið beint heim, heit sturta og vöðvaslakandi tafla. Ég tek nú ekki oft inn þannig töflur þannig að ég rétt náði að skvera stelpurnar af í náttföt, jógúrt í kvöldmat og upp í rúm. Þar á eftir rotaðist ég með Ipadinn ofan á mér og vaknaði við eiginmanninn þegar hann var að reyndi að telja mér trú um að ég væri sofandi sem ég náttúrulega harðneitaði fyrir. Ég var að horfa á mynd í Ipadnum.

Rankaði við mér um 4:00 þegar tveir sveittir litlir kroppar fóru að hnakkrífast um hver væri nær mér. Ég tek það fram að það er hitabylgja hérna í október. Fór upp í 36 stiga hita hérna á miðvikudaginn, ég var því ekkert parhrifin af því að hafa dömurnar límdar við mig. En hvað gerir maður ekki fyrir þessi börn. Ég lagðist á bakið á milli þeirra og tók þær í sitthvorn handarkrikann. Um leið og þær fóru að hrjóta smeygði ég mér við illan leik úr rúminu og í rúm eldri dótturinnar. Prísaði mig sæla með allt þetta rými, tek það fram að rúmið er 90cm á breidd. Kortéri seinna stóðu tvær litlar furðuverur við rúmstokkinn og vildu koma upp í. Tek það aftur fram að rúmið er 90cm á breidd. Eitthvað hef ég verið dópuð af þessarri litlu töflu en ég skellti þeim upp í og aftur hrutu þær á meðan ég taldi upp það sem þyrfti að gera daginn eftir, eftir nokkra klukkutíma. Ég öfundaði eiginmanninn af 170 cm rúminu sem hann var nú einn með..... Þannig að, stúlkurnar hressar og kátar skokkuðu í skólann með úthvíldum pabba sínum og mamman endaði í sófanum og ekkert kaffihúsastopp á þessum fagra föstudegi.

Dagurinn var samt ekki svo slæmur, það getur verið gott að gleyma sér einstaka sinnum og leyfa sér bara að vera LATUR. Það gerir ekkert til þótt að húsið verði ryksugað eftir hádegi eða þvotturinn sé hálftíma lengur í þurrkaranum. Í alvöru það kom mér líka á óvart...en það gerist ekkert.....

Seinni hluti dagsins var byrjaður með stæl, mamman búin að drýgja töflunna eins og hún mögulega gat í sófanum og nokkuð spök. Stelpur sóttar, hollur matur og heimavinna. Sundnámskeið og hvað svo.... Það var tvennt í boði. Rólo sem ég hef andstyggð af og lít á það eins og skylduverkefni sem hægt er að stroka út af TO DO listanum. Sem sagt róló eða verslunarmiðstöð....ég var ekki lengi að ákveða mig og við lögðum í leiðangur. Var svo innilega heppin að ég þurfti að kaupa ýmislegt fyrir veturinn. Við göngum inn í risastóra búð og förum upp á fyrstu hæð. Þetta var ekki alveg þaulhugsað þar sem við neyddumst til að ganga í gegnum dótadeildina sem var bye the way búið að stækka í tilefni jólanna og 35% afsláttur yfir helgina. Mínar misstu sig og ég yfirveguð sagði þeim að velja það sem þeim langaði í jólagjöf og ég skyldi taka mynd og senda ömmu þeirra. Þar sem sú stutta á það til að tapa sér á svona stöðum var ég nokkuð hress með að hún var sallaróleg með þessa lausn. Þannig að mamman gekk um alla búðina og smellti af myndum hægri vinstri.

Loksins komust við í gegnum dótadeildina og í fatadeildina. Ég klappaði mér á bakið fyrir að hafa leyst suðkrísuna eins og sannkallaður snillingur þegar sú stutta kallar mamma, mamma. Ég lít við og sé hana í ungbarnadeildinni. Hún heldur á ljósbleikum útigalla og brosir út að eyrum. "Mamma ég vil fá lítið barn". Hún er mikið í þessum gír þessa dagana og suðar um lítið barn eins og hvert annað barn suðar um Barbie dúkku. Ég tek af henni gallann og hengi hann á réttan stað. "komdu elskan, við erum að fara." Ég ákvað að reyna að smeygja mér út úr búðinni áður en nautið mitt færi að gjósa. En það er of seint. Hún hendir sér í gólfið og bendir á öll ungabörn sem voru með mæðrum sínum í búðinni. "Sjáðu mamma, hún á barn og hún líka, ég vil lítið barn". Ja há.....svona fór um búðarferð þá. Það kemur sér ágætlega að börnin mín tali annað tungumál við mig því það var litið á mig úr öllum áttum en enginn skyldi neitt, sem var kannski ekkert betra. Ekki algengt að 4 ára gamalt barn suði um bleikan útigalla og bendi á lítil börn.... en ég náði henni út. Hún grenjaði alla leiðina heim og taldi upp þá vini sem eiga lítið barn heima hjá sér. Að lokum segir sú stutta:

" Mamma þetta er ekki sanngjarnt. Ég má ekki fá Iphone en þú átt tvo, ég má ekki fá tölvu en þú átt tvær ölvur, ég má ekki fá Ipad og þú átt Ipad og ég má ekki fá lítið barn og þú átt tvö......"

 Það er nú aldrei lognmolla á þessu litla heimili mínu og ég sit eftir á föstudagskvöldi með rauðvínsglas og spyr mig af hverju enginn gefi út leiðarvísisbók um hvernig mömmuhlutverkið er í raun og veru....... 

  tired-mom

 


Hversdagsleikinn er furðuverk

Jæja, það er nú frekar langt síðan ég skrifaði síðast en mér fannst bara ekkert búið að gerast til þess að segja frá. Þegar ég fór svo að horfa yfir síðustu daga þá var margt og mikið búið að gerast. Ótrúlegt hvað okkur finnst stundum hversdagsleikinn ekki skipta svo miklu máli en í rauninni er hann stórmerkilegur. 

Nú vikan byrjaði á því að Meyjan ákvað að nú væri komið að því að mála íbúðina. Þar sem eiginmaðurinn er frekar laus við þá var hann settur í verkið. Honum er mikið til listanna lagt og hann færi nú létt með að mála eins og eina litla íbúð....hefði maður haldið.... Mamman gekk um götur og rólóvelli allan mánudaginn eftir skóla, fór á McDonalds, stúlkunum til mikillar gleði, og í IKEA til þess að leyfa eiginmanninum að vera í friði að mála. Mér fannst þetta snilld að vera í burtu svo hann myndi nú rumpa þessu af....EN..... Mamman treinaði til 19:30 með dömurnar á vappi og ákvað þá að fara heim og byrja að skreyta nýmálaða veggi með nýjum myndum og gardínum. Við göngum inn og þar er sá myndarlegi að ryksuga. Frábært hann þrífur og allt eftir sig. Meyjan fer nú að líta í kringum sig og bregður heldur en ekki í brún þegar hún sér að flest allir veggirnir eru blettóttir, keypti ég vitlausa málningu? Nú, ég spyr kurteisislega af hverju málningin sé svona og fæ þá það svar að þetta sé ekki búið að mála. Við erum að tala um flest alla veggi í íbúðinni. Hvað er búið að mála? spyr ég eins yfirvegað og ég get mögulega tamið mér og fæ þá það svar að það sé búið að mála forstofuna sem er bye the way 2 fermetrar..... Nú átti meyjan virkilega erfitt með sig...ekkert hægt að laga til, allt í drasli og málningarslettur á öllu parketinu. Eiginmaðurinn horfir skelkaður á mig og segir ljúft að hann hafi þó ryksugað alla íbúðina. Ég get svarið það að þarna átti ég ekki mínar bestu stundir, ég viðurkenni það að ég er ekki stolt af þessu en ég snappaði (pínu). Maður rumpar nú af einni helvítis íbúð segi ég og hrifsa upp nýhreinsaða málningarúlluna og dýfi henni ofan í málninguna og á vegginn. Plass....svona bara upp og niður....Í fljótfærni áttaði ég mig ekki á því að ég var að nota óblandaða málningu sem gerði ekkert nema skilja eftir þykkja slykju á veggnum. Ég hendi frá mér rúllunni og stíg óvart á blett sem hafði lekið á gólfið og skil eftir mig málningarslóð alla leið út á verönd þar sem ég hélt að það væri kannski við hæfi að fá sér smá ferskt loft. Inn í íbúðinni standa börnin mín "þrjú" og hlæja af mér...mér var ekki skemmt..

Nú en hvað um það vikan slygaðist áfram og þetta var ekki að ganga nógu hratt fyrir meyjuna þannig að nú er búið að mála helminginn og það kemur málari í næstu viku og málið er dautt. Man það næst að sumum er bara ekki ætlað að mála....ég meðtalin.

Hjónin eru að fara út að skemmta sér í kvöld. Barnapían kemur í fyrra lagi þar sem við eigum að vera mætt á staðinn klukkan 20:00. Ég strunsa með stelpurnar á sundæfingu, fer í búðina og ákveð að skjótast á veitingastaðinn sem brúðkaupið var haldið til þess að fá myndir sem þau tóku af þessum fallega degi. Þar sem það er hátt í 30 stiga hiti ákveð ég að nota sumarfötin og dressa mig upp fyrir föstudaginn í hælaskó og lekkerheit. Við göngum upp að veitingastaðnum sem er á golfvelli og ég furða mig á öllu þessu fína fólki sem er að spila gólf. Allt í einu mistíg ég mig svona svakalega nema hvað ég átta mig á því að botninn af einum fína hælaskónum er bara alveg farinn.

Ég skakklappast áfram út í bíl með dætur mínar flissandi á eftir mér. Fólk horfir á furðulegt göngulag mitt og ég reyni að labba á tánni á hælalausa skónum sem gerir bara illt verra. Ég anda djúpt þegar ég er komin út í bíl og ákveð að drífa mig heim að gera mig sæta fyrir kvöldið. Við erum að fara á einka vínsmökkun út í sveit. Ég er nú ekki mikil drykkjumanneskja og hvað þá þegar þarf að keyra langar leiðir. Nú er búið að taka inn Lórítín og magatöflur til þess að vera eins fersk og ég mögulega get. Spurning um hvernig dagurinn á morgun verður.....

En svona getur hversdagsleikinn verið skemmtilegur...

Heyrumst. 


Eflum hugann.

Sælan og ljúfan sunnudag. 

Eftir spítaladvöl með litla krúttið mitt, afmælisdag að halda á ælubala og tvær nætur í óþægilegum sjúkrahússófa með lak til að breiða yfir mig þá erum við mægður loksins komnar heim. Við héldum upp á afmæli mömmunnar á ströndinni og litla dúllan mín borðaði fisk eins og hún hefði ekki fengið að borða í viku sem hún í rauninni hefur ekki gert. Sólin skein og systurnar léku sér í friðsemd. Þótt sunnudagar fari yfirleitt í taugarnar á mér þá var þessi bara nokkuð góður.  

Þar sem ég hef sett mér það markmið að ljúka nokkrum áramótaheitum á næstu mánuðum þá ákvað ég að skrá mig á námskeið online í að efla hugann. Námskeiðið er á alveg brillant síðu sem er hér á Spáni. Þar geturðu farið á námskeið í næstum öllu, frítt og frá ýmsum háskólum á Spáni. Ég skráði mig á tvö. Eflum hugann og í núvitund, af því meyjan er að skoða nýja hluti.  í dag var svo lærdómur í eflum hugann. Þar var tekið fyrir, mér til mikillar gleði, að það skipti engu máli hversu gömul við erum, við getum alltaf lært meira. Engar afsakanir um að láta drauma sína ekki rætast vegna þess að okkur finnst kannski hallærislegt að reyna við þá komin á þennan og hinn aldurinn. Eins og brilliant vinkona mín segir alltaf að hún reynir að læra um allt á milli himins og jarðar til þess að verða hreinlega ekki leiðinleg. Mikið til í þessu skal ég segja ykkur. 

Ef við lokum augunum og spyrjum okkur hvað við erum gömul hvað segir hugurinn okkur? Kennitala og afmælisdagur segja okkur eitt en hvað segir hugurinn? Ég er allavega enn 25, það finnst mér allavega en ykkur? Við þrælum okkur út í ræktinni, kaupum dýrustu rakakremin til þess að halda húðinni ungri og líflegri, eyðum morðfjár í litun og klippingu á ári og lesum allt sem gæti gefið til kynna hvað er hægt að gera til þess að líta vel út er það ekki? En þjálfum við hugann nógu oft, hann er jú líka vöðvi? Nú í þessu námskeiði kom farm að við getum komið í veg fyrir ellimerki með því að þjálfa hugann. Meyjan ætlar nú að taka á þessu með stæl en ekki hvað. Er virkilega eitthvað slæmt við að hugleiða eða gefa okkur tíma í að hugsa um hvað við notum þennan furðulega vöðva í? Oft finnst mér fylgja þessu vissir fordómar og mörgum finnst þetta hallærislega mikil fyrirhöfn að sitja og hugleiða. Ég hef að vísu aldrei náð að hugleiða, er alltaf farin að telja upp hvað ég þurfi að gera eftir hádegi eða reyni að muna uppskriftina af súpunni sem ég ætla að gera í kvöld. En eins og með allt annað þarf að æfa og þjálfa hugann eins og líkamann. Þannig að nú er meyjan farin að prufa hugleiðslu. Það er náttúrlega gert á þann eina veg sem meyjan kann og búið er að gera playlista á Spotify með möntrum og yfirvegaðri arabískri tónlist sem hljómar ekki pirrandi. Ég gerði þá fyrstu í dag og ég gat verið kyrr í heila mínútu. Kannski ekki til þess að klappa fyrir en ég reyni bara betur á morgun. Get ekki sagt að ég hafi fengið mikið út úr þessu en af hverju líður flestum sem gera þetta að staðaldri svona vel. Er þetta fólk bara að leika það eða er kannski eitthvað til í þessu. Allavega verður reynt aftur á morgun, hver veit. 

 Kemur það ekki fyrir ykkur að við setjum okkur markmið og gefumst upp áður en við höfum reynt? Þetta er nú kannski ekki mjög tengt þræðinum í þessu bloggi en ég sem "bara mamma" síðustu 7 árin hef gert mér grein fyrir því að ég hef lagt margt til hliðar með allskyns afsökunum um að ég geri þetta á næsta ári, eða þegar stelpurnar eru orðnar stærri, þá hef ég meiri tíma fyrir mig. Þetta er bara bull og vitleysa og afsakanir til þess að smeygja sér ekki of langt út fyrir þægindahringinn. Ekki halda að þótt ég hafi gert mér grein fyrir öllu þessu að ég hafi tekið stökkið, nei, meyjan er enn að leita af afsökunum og ein af þeim er oft "ég er orðin 37 ára, hvernig á ég að fara að því að gera þetta með tvö börn og orðin þetta gömul". Málið er að eftir þetta langan tíma í þessu volæði og sjálfsvorkunn kemur að því að hugur og hjarta gefast upp á þér og segja hingað og ekki lengra. Nú þarf ég að gera eitthvað í þessum málum. Þannig að á morgun verður hugleitt aftur, kannski í 1:20, svo er það leiklistarnámskeiðið í næstu viku og er svo enn að leita mér að námskeiði í Ítölsku sem var eitt af áramótaheitunum. Sum hver verða að bíða fram á næsta ár en ég á allavega bara 6 eftir, það er ekki svo slæmt.

Að lokum vil ég skora á ykkur að setja ykkur markmið, setja á ykkur hlaupaskóna og skjótast af stað í áttina. Það er ekkert sem fullkomnar mann eins og að ná takmarki sínu, þótt við höldum þeim bara fyrir okkur þá er það sigur að sigrast á efanum og afsökunum.

Heyrumst og namaste!!! 


Allt er gott sem endar vel...er það ekki??

Heil og sæl þið sem lesið "reynslusögurnar" mínar. 

 Í gær fór mamman á fætur klukkan 4:30 og skellti sér í sturtu til þess að vera vel á veg komin þegar vekja skyldi ungana 3 (eiginmaðurinn meðtalinn). Við erum á leið í flug til London. Ég er nokkuð vel stemmd fyrir ferðalagið. Svaf vel í nótt sem ég vanalega geri ekki fyrir flug. Held alltaf að ég eigi eftir að sofa yfir mig og er meira og minna vaknandi alla nóttina og kortér á undan vekjaraklukkunni.

Velvöknuð og galvösk blæs ég á mér hárið svo ég líti nú ekki út eins og argintætta í flugi, maður verður nú að halda útlitinu svona í meðallagi á almannafæri, tala nú ekki um í flugi þar sem maður getur rekist á hvern sem er... Vek ungana og þau frekar hress. Sú eldri spennt og fær sér jógúrt, litla á aðeins erfiðara með að vakna og eiginmaðurinn spakur. Þetta byrjar allt þrusuvel bara.

Við erum komin upp á flugvöll tímanlega, engin yfirvigt aldrei þessu vant. Ég fæ mér rjúkandi og unaðslegan kaffibolla og Croissant. Fer í Mál og menningu til að kaupa penna í bækur sem stelpurnar ferðast með og fæ þá gefins. Ég meina klukkan er ekki nema 6:30 og allt gengur mér í hag. Alveg ljómandi. Skvísurnar velja sér gjafir fyrir peninginn frá afa og ömmu, rífast ekki einu sinni, ég klípi mig í kinnina til þess að athuga hvort ég sé nokkuð enn steinsofandi.

Við erum fyrst út í vél sem að vísu var út á stæði og við þurftum að hlaupa, eða fjúka í rauninni, í grenjandi bilaðri rigningu út í hana. Sú yngri ekki nema rétt 13 kíló hljóp ein út og varð vindinum nærri því að bráð. Jæja, við tekur hlýlegt starfsfólk og heit vél. Við setjumst og erum varla komin í loftið þegar sú yngri, sem bye the way er alveg martröð í flugvél, steinsofnar í flugtaki og sú eldri tapar sér í heimi tæknivæddra flugvéla sem bjóða upp á allskyns skemmtun. Mamman hallar sætinu og flippar í Ipadnum sínum líkt og hún sé ein á leið til New York. 

Ég er yfirleitt mjög taugaveikluð í flugtaki og lendingu og skipa karlinum að halda í stelpurnar. Hann spyr mig hvort ég haldi að þær séu að fara eitthvað. Meyjan snarheldur kjafti en nagar sig í vörina. Kannski opnast glugginn? Kannski þarf að vera hægt að grípa í þær. Ég meina maður veit aldrei. En hvað um það, ég þegi. Mjúk lending, hver segir svo að konur séu verri bílstjórar en karlmenn....

London, elsku London. Því ver og miður sé ég nú ekki mikið af London þegar ég kem hingað, en ég lifi mig inn í breska flugvallarmenningu í hvert sinn sem ég millilendi þar. Flugfreyjan biður alla að sitja kyrra og ég ákveð að flýta aðeins fyrir og stilla úrið á réttan tíma. Ég bít í pinnann á úrinu og rask rask.... pinninn verður þakinn hvítu dufti og ég er komin með brot í framtönn. Ég meina var ekki allt að ganga svo vel!!!

Ég lít sturluð af hræðslu í spegil og sé að ég er með smá rák sem sést lítið en raspar tunguna. Nú meyjan er svo sniðug að hún nær í naglaþjöl úr veskinu og á leiðinni að vegabréfstékkinu raspar hún tönninna fram og tilbaka. Gleymir fljótt að maður á að vera vel til fara og haga sér vel í utanlandsflugi. Pælið í því ef Goslinginn hefði nú labbað framhjá og ég að hamast með naglaþjöl upp í kjaftinum á mér. Ég næ í kerru fyrir töskurnar en hún er bara með einu hjóli sem virkar og fer allltaf til hægri. Ég rogast með hana á eftir mér í kerrulengjuna aftur og næ í nýja sem ískrar brjálæðislega, fólkið er nú farið að horfa á mig og ég sleppi körfunni og næ í nýja. Pæli ekkert í peningunum sem ég tapa.

Við tékkum okkur áfallalaust inn í flugið til Malaga, inn í vopnaleitina og þar sem ég er að reka á eftir öllum inn um hliðið gleymi ég að taka af mér belti og armband og allt pípar. Ég þarf að fara í þessa skemmtilegu leit. Óspennandi ensk kona þreifar á mér upp og niður eins og ég sé handtekin. Eins gott að ég var ekki með neinn vökva því þá hefði ég kannski þurft að afklæðast...Við förum og fáum okkur að borða, allir fá hollt og gott að borða og við eyðum biðtímanum á leiksvæði þar sem dætur mínar taka ensku börnin bókstaflega í nefið. Þau fá engu að ráða og sú yngri segir þeim til syndana á íslensku ef þeir nálgast hana. Ég tek rúnt á fríhöfnina og læt pabbann um að brosa kurteist til foreldrana í kring, sum hver ekki mjög sátt við uppátækjasöm börnin mín.

Flugið á tíma og við drífum okkur út í vél. Sitjum í steikjandi hita og mollulegu andrúmslofti. Tíminn líður en vélin fer ekki í loftið. Fljótlega er okkur tilkynnt að loftræstingin sé biluð og verið sé að bíða eftir að það verði lagað. Líður og bíður og eftir hálftíma er okkur tilkynnt að það séu þrjár töskur um borð sem eigi ekki að vera þar og að loftræstikerfið sé enn bilað. Við fylgjumst með þegar allur farangurinn er tekinn af vélinni og raðað á stæðið. Öryggisspjaldið í sætisvasanum er nú orðinn hinn besti blævængur. Áttum að fara í loftið 16:40 og nú er klukkan 17:50. Tek það fram að litli skæruliðinn minn svaf í fyrri vélinni þannig að það eru ENGAR líkur á að hún sofni í þessu flugi. 

Að lokum förum við í loftið, tveir og hálfur tími og við komumst heim í rúm. Ég er orðin frekar lumpin og lúin þegar hálftími er eftir. Sú yngri fór að rölta með pabbanum og sú eldri sefur. Augnablikslúr, þá get ég kannski tekið upp úr einni tösku þegar ég kem heim, minna að gera á morgun. Meyjan er enn hérna sko... Hrekk upp við að eignmaðurinn segir í frekar hærra lagi að yngri dóttirin hafi verið að kúka og sé með njálg. Ég glaðvakna við þessar andstyggilegu fréttir og sú stutta apar upp eftir pabba sínum að hún sé með orma í rassinum á spænsku í flugi til Spánar..... Hvað nú??? Meyjan kemst ekki á netið að athuga með úrræði. Pabbinn vill fara með saur í sýni en ég held nú ekki....hér verður tekið í taumana í kvöld.

Við druslumst heim, klukkan orðin 22:30, pabbinn sendur í apótek sem tekur klukkutíma. Á meðan eru skvísurnar háttaðar og á leið í sturtu þegar ég uppgötva að það er ekkert heitt vatn. ARGGGG. Pirringurinn er alveg að ná yfirhöndinni en ég anda djúpt, kannski næ ég að taka upp úr töskunum á meðan. Multitasking. Dömurnar eru svangar þannig að það er slengt fram eins og tveimur brauðsneiðum með mysing sem er það eina sem er til. Þakka fyrir að hafa verslað í aðra ferðatösku. 

Klukkan 00:00 sitjum við fjölskyldan og gæðum okkur á meðalinu. Ein skeið á mann af því það eru ekki til töflur fyrir okkur, uppselt í apótekinu!!! Ég kem öllum ungunum mínum í rúmið og fer svo að ná í box fyrir Cherriosið þegar ég sé að það eru litlar pöddur í öllum plastílátunum. OJJJJ ég er ekki að meika meir í kvöld. En fer meyjan að sofa neiiiiiiiii. Dríf allt út úr skápnum og skrúbba þetta hátt og lágt. Allt í uppþvottvél og því versta hreinlega hent. Þegar klukkan er að ganga tvö ákveð ég að hætta, heilsu minnar vegna. Það meira að segja skoppar ein kónuguló framhjá mér og fer undir sófann en ég pödduhrædda mamman er bókstaflega uppgefin og játa mig sigraða. Leyfi kóngulónni að lifa enn einn dag.

Upp í rúm að sofa í steikjandi hita. Allir í sama rúminu þá þarf ekki að skipta á þeim öllum á morgun.

Þar sem sú yngri, samkvæmt pabbanum, var með njálg fer hún ekki í skólann og gengur um og ruslar til á meðan ég reyni að ganga frá dótinu daginn eftir. Við erum í 70m2 íbúð þannig að það er aldrei pláss fyrir neitt. Meyjan fer í algjöran ham og byrjar að henda og henda. Áður en ég veit af eru komnir 10 ruslapokar út á stétt og aðrir 4 í Rauða krossinn. Skrúbbað út úr skápunum og raðað upp á nýtt. Það er kannski ágætt að fara í burtu í svona langan tíma því það fer alltaf eitthvað á haugana þegar ég kem út aftur. Var nærri búin að henda verkfærum eiginmannsins en hann tók þau fljótt af mér og lallaði með þau í annan skáp.

íbúðina er búið að sótthreinsa, þvo 8 þvottvélar, meira að segja fór sjálft óhreinatauið í vél. Búið að henda útrunna matnum og taka vel til í barnadótinu og þrífa allar Barbiedúkkurnar. Klukkan orðin 22:00 og ég er búin að henda mér í sófann með bjór. Byrja í ræktinni næsta mánudag........ 


Ferðatöskukrísa

Góðan og blessaðan föstudag gott fólk.

Ég elska föstudaga, hef alltaf gert. Það er eitthvað við þessa daga. Allir eru eitthvað svo jákvæðir, í góðu skapi og með tilhlökkun í hjarta. Föstudagar eru eins og nokkurs konar Þorláksmessa, uppáhaldsdagurinn minn á árinu. Á föstudögum byrjar helgin og þá má maður svindla á einfaldlega öllu. Engin vekjaraklukka, nammi  með góðri bíómynd og börnin frjáls með vinum sínum. Eflaust segja nú einhverjir að maður eigi bara að halda sínu heilsustriki líka um helgar en ekki ég, ég leyfi mér allt. Hef alltaf verið þekkt fyrir að eiga nammiskáp og nammidag.

Fyrir rúmlega áratug. Já gott fólk áratug, var föstudagurinn nýttur í að versla dress á Spáni fyrir helgina. Hringjast á og leggja á ráðin með föstudags- og laugardagskvöldin, já bæði kvöldin og fór létt með það. í dag er ég viku að jafna mig eftir saumaklúbb á föstudegi, gamla góða alveg með þetta. Núna eru það jogging buxurnar og hárbandið, mjúka teppið og rauðvínsglasið, kornamaskinn og kósýsokkar. Ekki spillir að eiga eins og eina rómantíska mynd sem bíður eftir manni, eða tvo þætti af Scandal sem á eftir að horfa á. Love it. Í kvöld er það Orange is the New black og ef ég verð ekki sofnuð fyrir ellefu á undan frumburðinum þá skelli ég Begin Again í Ipadinn og dotta yfir henni. Lofar mjög góðu, læt ykkur vita hvernig fer.

Föstudagar eru hálfgerður helgidagur hjá mér, ég þríf ekki, elda ekki, set ekki í þvottavél, brýt ekki saman þvott eða dríf mig í að skrúbba rykugar strimlagardínurnar í stofunni. Aftur á móti er ég mjög á móti sunnudögum og líki þeim við Nýársdag sem er bye the way leiðinlegasti dagur ársins að mínu mati, veit ekki ástæðuna nema þá að mér finnst hann vera eilífur sunnudagur, jólin búin og langir mánuðir að byrja. Kannski er ég bara svona mikið jólabarn þrátt fyrir að vera að nálgast fertugt, ég á enn 3 ár og 6 daga eftir í þann áfanga.

 En ég byrjaði nú að blogga í dag til þess að tala um aðra hluti en föstudagana.

Tveir dagar eftir á klakanum í bili. Ótrúlegt hvað tíminn líður. Ég minni mig á að annað ár sé liðið og ég hafi ekki enn komið öllu í verk sem ég ætlaði að vera búin að gera síðan síðasta sumar. Kíki á litla minnisblaðið sem ég skrifa um hver áramót, á eftir að koma í verk nokkrum af heitunum mínum fyrir 2014 og bara tæpir 4 mánuðir til stefnu. 

Stefnan er tekin aftur til Spánar á sunnudagsmorgun klukkan 7:45 þannig að ég þarf að vakna um 4:30 á sunnudagsnótt. Yngri dóttirin hefur vinsamlegast beðið ömmu sína um að fá eitt herbergi hjá henni á meðan foreldrar hennar og eldri systir fari til Spánar. Hún er ekkert á leiðinni með, það þarf að tækla nautið fyrir sunnudaginn. En talandi um ferðalög, ansans ferðatöskudramað sem maður lendir alltaf í, ég allavega. Tók alltof mikið með mér og er ekki búin að nota helminginn af fötunum sem ég kom með. Samt dröslast ég með eina tösku á mann, fjórar í heildina í fjögur flug. Hef nú verið að ferðast í 15 ár til Íslands, en erfitt það er víst erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Ég tók þetta saman um daginn og brá heldur betur í brún þegar ég áttaði mig á því að ég borga hvorki meira né minna en rúmar 54.000 krónur í ferðatöskukostnað í einni ferð til Íslands. Hvað er maður að spá. Allt sem ég gæti keypt mér fyrir þennan pening. 

Í hverri ferð ætla ég mér að skilja eitthvað eftir svo ég þurfi ekki að koma með svona svakalega mikið næst en stend svo alltaf með fjórar útsprengdar ferðatöskur upp á flugvelli og furða mig á því hvernig þetta hafi gerst, 54.000 í ferðatöskukostnað. Eiginmaðurinn hlær í laumi og hristir hausinn þegar hann rogast með fjórar ferðatöskur og þrjár í handfarangri. Svo eru það töskurnar fyrir stelpurnar, dúkkur og aðrir fylgihlutir sem bara verða að fara með í ferðalagið til Íslands. Lággjaldaflugfélög eru kannski ódýrari en hin en ég held í rauninni að þetta sé mjög svipað þegar allt er tekið til. Ferðatöskur, matur, þægindi og annað. Ég ferðast yfirleitt með þeim flugfélögum sem bjóða best á þeim tíma sem ég þarf að ferðast en kemst ekki hjá þeirri tilfinningu að finnast ég vera komin heim þegar ég geng um borð í Icelandair vél og þar er ég ekki að borga neitt extra gjald fyrir ferðatöskuna, alveg snilld fyrir samviskuna.

Nú jæja þar sem ég er meyja fyrir allan peninginn er ég vön að pakka viku fyrir brottför, ég meina maður veit aldrei. Kannski hringir Icelandair og þarf að flýta ferðinni eða þannig. Allavega þá eru tveir dagar til stefnu og ég er ekki enn búin að pakka "öllu" er samt byrjuð sko. Er þetta þroskamerki eða bara meyjarleti? Ég næ í ferðatöskurnar fjórar og átta mig á því að ég þarf bara þrjár. Er samt búin að kaupa fjórar töskur þannig að ég verð víst að fara út í búð og fylla á nammiskápinn út á Spáni, eða hvað finnst ykkur?

Enda með því að versla nammi, harðfisk og osta fyrir morðfjár og fylli tösku númer 4. Nú er ég búin að spreða í varning í fjórðu töskuna. Ég er alveg búin að sætta mig við það að ég kann ekki að ferðast létt.

Góða helgi flotta fólk

 

 


Mánudagur til mæðu

Óþægilegt og pirrandi píp heyrist í fjarska og rænir mér úr yndislegum draumum sunnudagskvöldsins, dregur mig aftur inn í raunveruleikann og minnir  á að það er tími til að koma sér fram úr. Eftir að hafa kraflað sig í gegnum litlar hendur og fætur sem eru vafðar utan um mig næ ég í rassgatið á símanum sem víbrar á náttborðinu og snúsa hann. Tíu mínútur í viðbót gerir nú ekki mikið til. Ótrúlegt hvað þessar tíu mínútur eru fljótar að líða. Af hverju er tíminn alltaf svo lengi að líða þegar maður er að gera eitthvað sem maður vildi helst ljúka af sem fyrst. Aldrei líður tíminn hægar þegar maður þarf virkilega á fleiri mínútum að halda eða bara langar einfaldlega í mínútu með 100 sekúndum. Ég er eflaust ekki ein um þessa ósk.

Síminn vælir aftur, tíu mínúturnar eru búnar og ekki í boði að snúsa símann einu sinni enn því þá fer allt í panik. Ég drattast fram úr og vek mjúka og heita kroppa sem kúra sig vært í sængina og breiða yfir haus. Eftir nokkur köll er tónninn hækkaður og þær draga á eftir sér lappirnar í sófann. Fyrsta takmarki morgunsins er náð. Nú þarf að forgangsraða. Fötin eru ekki tilbúin þar sem ég ætlaði að vakna snemma og hélt að ég hefði nægan tíma. Nú er klukkan orðin 7:20 og við erum enn með úfið hár og í náttfötum. Karlinn er rekinn á fætur og beðinn um að klæða yngri skvísuna. Sú eldri á að sjá um sig sjálf á meðan ég hendi mér í snögga sturtu. Úr sturtinni sendi ég skilaboð um hvað eigi að gera næst og hvernig gangi þarna frammi. Ég rek mig í hornið á baðborðinu og blóta því í sand og ösku um leið og eldri dóttirin kemur inn að pissa, enn í náttfötum og kvartar um að henni sé kalt.

Pirringurinn er að ná yfirhöndinni og ég fer í sturtu á mettíma, er ábyggilega enn með hárnæringu í hárinu þegar ég hálfblæs það og skil eftir stóran lokk að aftan enn blautan. Skelli mér í fötin og fer fram í stofu. Sú yngsta er komin í fötin en farin að borða jógúrt og búin að sulla niður á allan bolinn. Ég hleyp til, næ í nýjan og mata hana af restinni af jógúrtinu til að flýta fyrir. Sú eldri er enn að fara í sokkana, bara komin í annan. Ég hendi jógúrtinu í ruslið, skelli skvísunni í nýjan bol og fer svo eins og rispuð plata, tautandi, að koma þeirri eldri í fötin. Hún byrjar að kvarta yfir því að fá ekki að vera í kjól og um leið og hún nefnir kjól fer sú yngri (sem er naut bye the way)  að klæða sig úr fötunum sem tók allan þennan tíma að koma henni í. Hún ætlar í kjól líka. ARRRGGGGG ég er að bilast. Á ég að öskra, anda djúpt eða lúffa og setja þær báðar í kjól. Nei, mamman á ekki að leyfa þeim að komast upp með allt, uppeldisráðin úr öllum bókunum sem ég hef lesið ryðjast að og gera mér ekkert auðveldara fyrir þegar ég klæði þá yngri aftur í sömu fötin öskrandi eins og æstur grís.

7:45 og þær eru báðar komnar í föt, úff það tókst. Ég teymi þær inn á bað og skelli í tvö tögl við mótmæli, auðvitað. Ein vill Frosen fléttu og hin vill hliðartagl. Til þess að krydda aðstæður aðeins fara þær að hnakkrífast um hver sé Elsa, báðar vilja vera Elsa. Sem ég skil ekki því Anna er miklu flottari týpa en hvað veit mamman. Ég reyni að sætta málin og segi þeim að þær geti verið báðar Elsa. Virkar ekki. Ég held þolinmæðinni eins og uppeldisráðin segja og útskýri rólega með annað augað á klukkunni að ein sé litla Elsa og hin stóra Elsa, þær hálfsættast. Tannburstarnir eru rifnir upp úr glasinu á baðborðinu, tannkreminu klínt á og upp í munn. Ég myndi tannbursta þær báðar í einu ef ég þyrfti ekki að halda þeim kyrrum þar sem þær gera ekkert annað en að reyna að tala við hvor aðra með gapandi tannkremsfroðumunn. Þær skola og ég lít á klukkuna, hún er 7:55, ég hef tíu mínútur til þess að mála mig og koma okkur út í bíl. 

Förðunarráðin fljúga út um gluggann og ég maka á mig BB kreminu með puttunum, smá púður yfir og bólufelara yfir stressbólurnar. Maskari og gloss og Voila búið. 

Sú eldri kvartar um svengt. Guð minn góður ég kem alltof seint. Ég gríp jógúrt úr ísskápnum, skelli röri í það og sendi hana í stígvélum út í bíl með jógúrtið. Þarna sló ég tvær flugur í einu höggi. Fleygi úlpunni á þá yngri sem stendur í krummafót og suðar um að fara með bangsa á leikskólann. Af þeim milljón böngsum sem hún á þá þarf hún að vara með bleika grísinn í dag og hann finnst hvergi. Ég leita undir rúmi og ofan í dótakassanum á milljón og loksins finnst hann ofan í óhreinatauinu en fær samt að fljóta með á leikskólann. 

Klukkan er 8:00 og ég er lögð af stað. Ég næ þessu. Þeirri yngri er liggur við fleygt inn á deild á leikskólanum og rokið út. klukkan 8.08 göngum við mæðgur inn í skólann. Sem betur fer vinn ég á sama stað þannig að... Ég kveð hana og rík upp á kaffistofu svo ég geti náð mér í einn kaffibolla fyrir tíma. Rjúkandi heitt kaffið vekur mig og ég minni mig á að á morgun verði ég að stilla vekjaraklukkuna aðeins fyrr. Ég man samt óljóst að það var einmitt það sem ég ætlaði að gera í morgun.

Mánudagur til mæðu, já kannski bara.......  

 

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband