Allt er gott sem endar vel...er það ekki??

Heil og sæl þið sem lesið "reynslusögurnar" mínar. 

 Í gær fór mamman á fætur klukkan 4:30 og skellti sér í sturtu til þess að vera vel á veg komin þegar vekja skyldi ungana 3 (eiginmaðurinn meðtalinn). Við erum á leið í flug til London. Ég er nokkuð vel stemmd fyrir ferðalagið. Svaf vel í nótt sem ég vanalega geri ekki fyrir flug. Held alltaf að ég eigi eftir að sofa yfir mig og er meira og minna vaknandi alla nóttina og kortér á undan vekjaraklukkunni.

Velvöknuð og galvösk blæs ég á mér hárið svo ég líti nú ekki út eins og argintætta í flugi, maður verður nú að halda útlitinu svona í meðallagi á almannafæri, tala nú ekki um í flugi þar sem maður getur rekist á hvern sem er... Vek ungana og þau frekar hress. Sú eldri spennt og fær sér jógúrt, litla á aðeins erfiðara með að vakna og eiginmaðurinn spakur. Þetta byrjar allt þrusuvel bara.

Við erum komin upp á flugvöll tímanlega, engin yfirvigt aldrei þessu vant. Ég fæ mér rjúkandi og unaðslegan kaffibolla og Croissant. Fer í Mál og menningu til að kaupa penna í bækur sem stelpurnar ferðast með og fæ þá gefins. Ég meina klukkan er ekki nema 6:30 og allt gengur mér í hag. Alveg ljómandi. Skvísurnar velja sér gjafir fyrir peninginn frá afa og ömmu, rífast ekki einu sinni, ég klípi mig í kinnina til þess að athuga hvort ég sé nokkuð enn steinsofandi.

Við erum fyrst út í vél sem að vísu var út á stæði og við þurftum að hlaupa, eða fjúka í rauninni, í grenjandi bilaðri rigningu út í hana. Sú yngri ekki nema rétt 13 kíló hljóp ein út og varð vindinum nærri því að bráð. Jæja, við tekur hlýlegt starfsfólk og heit vél. Við setjumst og erum varla komin í loftið þegar sú yngri, sem bye the way er alveg martröð í flugvél, steinsofnar í flugtaki og sú eldri tapar sér í heimi tæknivæddra flugvéla sem bjóða upp á allskyns skemmtun. Mamman hallar sætinu og flippar í Ipadnum sínum líkt og hún sé ein á leið til New York. 

Ég er yfirleitt mjög taugaveikluð í flugtaki og lendingu og skipa karlinum að halda í stelpurnar. Hann spyr mig hvort ég haldi að þær séu að fara eitthvað. Meyjan snarheldur kjafti en nagar sig í vörina. Kannski opnast glugginn? Kannski þarf að vera hægt að grípa í þær. Ég meina maður veit aldrei. En hvað um það, ég þegi. Mjúk lending, hver segir svo að konur séu verri bílstjórar en karlmenn....

London, elsku London. Því ver og miður sé ég nú ekki mikið af London þegar ég kem hingað, en ég lifi mig inn í breska flugvallarmenningu í hvert sinn sem ég millilendi þar. Flugfreyjan biður alla að sitja kyrra og ég ákveð að flýta aðeins fyrir og stilla úrið á réttan tíma. Ég bít í pinnann á úrinu og rask rask.... pinninn verður þakinn hvítu dufti og ég er komin með brot í framtönn. Ég meina var ekki allt að ganga svo vel!!!

Ég lít sturluð af hræðslu í spegil og sé að ég er með smá rák sem sést lítið en raspar tunguna. Nú meyjan er svo sniðug að hún nær í naglaþjöl úr veskinu og á leiðinni að vegabréfstékkinu raspar hún tönninna fram og tilbaka. Gleymir fljótt að maður á að vera vel til fara og haga sér vel í utanlandsflugi. Pælið í því ef Goslinginn hefði nú labbað framhjá og ég að hamast með naglaþjöl upp í kjaftinum á mér. Ég næ í kerru fyrir töskurnar en hún er bara með einu hjóli sem virkar og fer allltaf til hægri. Ég rogast með hana á eftir mér í kerrulengjuna aftur og næ í nýja sem ískrar brjálæðislega, fólkið er nú farið að horfa á mig og ég sleppi körfunni og næ í nýja. Pæli ekkert í peningunum sem ég tapa.

Við tékkum okkur áfallalaust inn í flugið til Malaga, inn í vopnaleitina og þar sem ég er að reka á eftir öllum inn um hliðið gleymi ég að taka af mér belti og armband og allt pípar. Ég þarf að fara í þessa skemmtilegu leit. Óspennandi ensk kona þreifar á mér upp og niður eins og ég sé handtekin. Eins gott að ég var ekki með neinn vökva því þá hefði ég kannski þurft að afklæðast...Við förum og fáum okkur að borða, allir fá hollt og gott að borða og við eyðum biðtímanum á leiksvæði þar sem dætur mínar taka ensku börnin bókstaflega í nefið. Þau fá engu að ráða og sú yngri segir þeim til syndana á íslensku ef þeir nálgast hana. Ég tek rúnt á fríhöfnina og læt pabbann um að brosa kurteist til foreldrana í kring, sum hver ekki mjög sátt við uppátækjasöm börnin mín.

Flugið á tíma og við drífum okkur út í vél. Sitjum í steikjandi hita og mollulegu andrúmslofti. Tíminn líður en vélin fer ekki í loftið. Fljótlega er okkur tilkynnt að loftræstingin sé biluð og verið sé að bíða eftir að það verði lagað. Líður og bíður og eftir hálftíma er okkur tilkynnt að það séu þrjár töskur um borð sem eigi ekki að vera þar og að loftræstikerfið sé enn bilað. Við fylgjumst með þegar allur farangurinn er tekinn af vélinni og raðað á stæðið. Öryggisspjaldið í sætisvasanum er nú orðinn hinn besti blævængur. Áttum að fara í loftið 16:40 og nú er klukkan 17:50. Tek það fram að litli skæruliðinn minn svaf í fyrri vélinni þannig að það eru ENGAR líkur á að hún sofni í þessu flugi. 

Að lokum förum við í loftið, tveir og hálfur tími og við komumst heim í rúm. Ég er orðin frekar lumpin og lúin þegar hálftími er eftir. Sú yngri fór að rölta með pabbanum og sú eldri sefur. Augnablikslúr, þá get ég kannski tekið upp úr einni tösku þegar ég kem heim, minna að gera á morgun. Meyjan er enn hérna sko... Hrekk upp við að eignmaðurinn segir í frekar hærra lagi að yngri dóttirin hafi verið að kúka og sé með njálg. Ég glaðvakna við þessar andstyggilegu fréttir og sú stutta apar upp eftir pabba sínum að hún sé með orma í rassinum á spænsku í flugi til Spánar..... Hvað nú??? Meyjan kemst ekki á netið að athuga með úrræði. Pabbinn vill fara með saur í sýni en ég held nú ekki....hér verður tekið í taumana í kvöld.

Við druslumst heim, klukkan orðin 22:30, pabbinn sendur í apótek sem tekur klukkutíma. Á meðan eru skvísurnar háttaðar og á leið í sturtu þegar ég uppgötva að það er ekkert heitt vatn. ARGGGG. Pirringurinn er alveg að ná yfirhöndinni en ég anda djúpt, kannski næ ég að taka upp úr töskunum á meðan. Multitasking. Dömurnar eru svangar þannig að það er slengt fram eins og tveimur brauðsneiðum með mysing sem er það eina sem er til. Þakka fyrir að hafa verslað í aðra ferðatösku. 

Klukkan 00:00 sitjum við fjölskyldan og gæðum okkur á meðalinu. Ein skeið á mann af því það eru ekki til töflur fyrir okkur, uppselt í apótekinu!!! Ég kem öllum ungunum mínum í rúmið og fer svo að ná í box fyrir Cherriosið þegar ég sé að það eru litlar pöddur í öllum plastílátunum. OJJJJ ég er ekki að meika meir í kvöld. En fer meyjan að sofa neiiiiiiiii. Dríf allt út úr skápnum og skrúbba þetta hátt og lágt. Allt í uppþvottvél og því versta hreinlega hent. Þegar klukkan er að ganga tvö ákveð ég að hætta, heilsu minnar vegna. Það meira að segja skoppar ein kónuguló framhjá mér og fer undir sófann en ég pödduhrædda mamman er bókstaflega uppgefin og játa mig sigraða. Leyfi kóngulónni að lifa enn einn dag.

Upp í rúm að sofa í steikjandi hita. Allir í sama rúminu þá þarf ekki að skipta á þeim öllum á morgun.

Þar sem sú yngri, samkvæmt pabbanum, var með njálg fer hún ekki í skólann og gengur um og ruslar til á meðan ég reyni að ganga frá dótinu daginn eftir. Við erum í 70m2 íbúð þannig að það er aldrei pláss fyrir neitt. Meyjan fer í algjöran ham og byrjar að henda og henda. Áður en ég veit af eru komnir 10 ruslapokar út á stétt og aðrir 4 í Rauða krossinn. Skrúbbað út úr skápunum og raðað upp á nýtt. Það er kannski ágætt að fara í burtu í svona langan tíma því það fer alltaf eitthvað á haugana þegar ég kem út aftur. Var nærri búin að henda verkfærum eiginmannsins en hann tók þau fljótt af mér og lallaði með þau í annan skáp.

íbúðina er búið að sótthreinsa, þvo 8 þvottvélar, meira að segja fór sjálft óhreinatauið í vél. Búið að henda útrunna matnum og taka vel til í barnadótinu og þrífa allar Barbiedúkkurnar. Klukkan orðin 22:00 og ég er búin að henda mér í sófann með bjór. Byrja í ræktinni næsta mánudag........ 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband