Jólasaga

Gleymir jólasveinninn mér í ár? 

 

Davíð fylgdist með bekkjarfélögum sínum hreykja sér af nýrri úlpu frá New York, Spiderman húfu frá Glasgow og jólasveinablýöntum frá Boston. Guli uppyddaði blýanturinn hans lá við hliðinni á látlausri stílabókinni sem búið var að rífa úr fyrstu blaðsíðurnar, þær höfðu verið notaðar í fyrra en bókin tiltölulega heil.

  Úti kyngdi niður snjó og hann vissi að í kvöld myndu krakkarnir setja skóinn út í glugga. Hann fann hvernig snjóboltinn í maganum stækkaði og þrýsti sér upp hálsinn. Nú færi kennarinn að spyrja hvað þau hefðu fengið í skóinn.

  Davíð róaðist við hægan andvarann sem vaggaði snæviþöktum greinum trjánna. Svo látlaust, svo vært. Það voru þrettán dagar til jóla og sjö ára börn iðuðu í skinninu eftir ljúfum og hlátursríkum tíma framundan. Að vissu leyti hlakkaði hann líka til, mamma fengi frí í vinnunni og þau myndu borða saman kvöldmat. Tár laumaðist niður kinnina sem hann var fljótur að þerra burt með hnökróttri peysuerminni.

  Skólanum lauk með áreynslulausri kveðju kennarans sem minnti á að setja skóinn út í glugga og fara snemma að sofa. Hann klæddi sig í úlpuna sem hann hafði fengið gefins í fyrra og dró húfuna sem mamma hafði prjónað handa honum um síðustu jól niður ennið. Hún var græn, uppáhaldsliturinn hans.

  Það marraði í snjónum undan gúmmístígvélunum sem hleyptu kuldanum inn og bitu í tærnar. Það var hljóðlátt og Davíð virti fyrir sér regnbogalitaða gluggana, kanillyktina sem laumaði sér út um þá og krakka sem voru að lauma skónum í gluggasyllurnar. Leiðin heim var angurvær og rólynd. Friður umlukti hjarta Davíðs sem sló í takt við göngu hans. Hann náði í lyklana sem voru þræddir upp á grænt lopaband og stakk þeim í skrána.

  Einmanaleg íbúðin bauð hann velkominn. Hann raðaði blautum stígvélunum á mottuna við innganginn svo þau myndu ekki bleyta gólfið, hengdi upp úlpuna sína á lítinn snaga og lagði húfuna á ofninn svo hún myndi þorna. Inn í eldhúsi glitti á gamalt aðventuljós sem mamma hafði fengið frá nágranna af því ein pera var biluð, blikkaði endalaust. Hann settist á koll og borðaði samlokuna sem mamma hafði útbúið áður en hún fór til vinnu. Á veggnum hékk útsaumuð mynd af jólasveinunum þrettán. Skyldu þeir koma til mín í ár, hugsaði Davíð og beit í þurra samlokuna.

                                                  ­~~~~~~~~

Kári kom askvaðandi inn heima hjá sér og blautu kuldaskórnir endasentust fram á nýlagt parketið. Nýja úlpan endaði í leðursófanum og húfan fór sömu leið.

– Kári minn gakktu betur um elskan, þú veist að jólasveinninn er farinn að fylgjast með. Mamma hengdi upp úlpuna og raðaði kuldaskónum á skógrindina inn í forstofu.

– Ég veit mamma, geri það á eftir, ég þarf að setja skóinn út í glugga svo ég gleymi því ekki. Á ég að setja stígvél eða spariskó?

– Þú ræður því elskan.

  Kári stillti upp einu stígvéli og svörtum spariskó í gluggakistuna, stundum var betra að hafa tvo. Hann brosti og andaði að sér piparkökuilminum sem liðaðist inn um herbergisdyrnar eins og óþekkur ormur. Herbergið var uppljómað af grænni seríu sem pabbi hafði hengt yfir rúmið hans og í glugganum lýsti hvítt jólatré upp skammdegið. Innan úr stofu, þar sem herra grænn og fröken rauður höfðu hertekið rýmið, ómaði jólatónlist úr hljómtækjunum og það snarkaði í tveimur kertum sem táknuðu aðventuna.

  – Komdu að fá þér smákökur Kári minn.

  Mamma kallaði en hann nennti ekki að borða þessar smákökur, mamma bakaði svo mikið og núna langaði hann að leika við nýja Spiderman karlinn sem amma hafði komið með frá Spáni í sumar. Hann leiddi köll móður sinnar hjá sér og týndi sér í ímynduðum heimi ómennskra vera.

                                                  ~~~~~

Davíð sat á gólfinu inn í herbergi og gerði músastiga úr gömlum tímaritum sem hann hafði sankað að sér. Því litríkari sem þau voru, því jólalegri. Hann ætlaði að gleðja mömmu sína með því að vera búin að skreyta stofuna þegar hún kæmi heim í kvöld.

  Það surgaði í gömlu útvarpinu. Honum heyrðist þetta vera sígilt jólalag sem mamma hafði stundum sungið en var ekki viss. Hann leit út í glugga þar sem strigaskór lá skakkur á syllunni. Það var gat á tánni en hann yrði að duga. Jólasveinninn gleymdi stundum að setja í skóinn hans Davíðs en mamma sagði að það væri af því að hann þyrfti að gleðja svo marga krakka að stundum kæmist hann ekki í öll hús. Hann var samt sá eini sem gleymdist stundum. Það var erfitt að segja frá því þegar kennarinn spurði hvern og einn hvað þau hefðu fengið frá jólasveininum. Stundum skrökvaði hann til þess að óvelkomin athyglin staldraði ekki við hjá honum.

  Á gólfinu var samtíningur af leikföngum sem mamma kom með heim úr vinnunni. Alltaf hljómaði hún jafn hissa þegar hún birtist seint á kvöldin með poka fullan af dóti.

  – Sjáðu hvað hún Margrét í vinnunni kom með handa þér Davíð minn.

  Þetta var yfirleitt mjög flott dót en stundum laumaðist með lítil Barbie dúkka eða bleikt PetShop dýr. Davíð leyfði þeim samt að vera með í leiknum.

                                                  ~~~~

  – Kári minn, veldu eitt leikfang sem þú ert hættur að leika þér með og settu það í þennan skókassa. Við ætlum að gefa það einhverjum sem á ekki mikið. Mamma var komin inn í herbergi til Kára þar sem hann var umkringdur gúmmískrímslum og ofurkörlum. Sumir voru undir rúminu að velta sér upp úr ryki og aðrir voru á botni dótakassans.

  – Nei mamma ég á alla þessa karla.

  Mamma útskýrði fyrir honum að á jólunum væru margir sem ættu erfitt og sérstaklega börn. Eftir miklar vangaveltur skreið Kári undir rúm og dustaði rykið af grænni risaeðlu sem hann mundi ekki eftir að hafa átt. Mamma þreif hana og pakkaði ofan í skókassa umvafinn snjókarlapappír. Hún merkti hann strákur sjö ára og setti hann í poka inn í stofu.

  – Hvað er í þessum poka mamma? Kári skyldi ekki af hverju það var svona mikið í honum. Ónotuð úlpa sem hann hafði ekki passað í, blýantapakki með hoppandi jólasveinum og stílabók í stíl, box með glænýjum piparkökum, náttföt sem honum hafði fundist ljót og ekki viljað vera í og allskyns matarvörur.

  – Kári minn, jólasveinninn getur ekki séð um alla. Stundum þarf hann aðstoð.         – Já en mamma þú gefur ekkert nammið okkar er það?

                                                  ~~~~

Úti hélt áfram að kyngja niður snjó og trén áttu erfitt með að halda sér uppi undan þunga hans. Það yrði erfitt fyrir mömmu að komast heim úr vinnunni í kvöld. Davíð var að hita upp kjötbollur í örbylgjuofninum. Hann var búin að lesa og skrifa í sögubókina sína um Stekkjastaur, hann var væntanlegur í kvöld. Hann settist við eldhúsborðið og borðaði kjötbollurnar sínar, snéri perunni í aðventuljósinu til þess að hún hætti að blikka og það tókst. Hann sá inn um uppljómaðan gluggann á íbúðinni á móti hvar fjölskyldan var að setjast til kvöldverðs. Mamma færi að koma heim og hann hlakkaði mikið til. Hann fór inn í stofu og virti fyrir sér fagurlega skreytta stofuna þar sem úði og grúði af músastigum úr allskyns letri og pappírsgerð. Hann vaskaði upp eftir sig og gekk frá upplitaða plastdisknum sínum.

                                                  ~~~~

  Aðfangadagur jóla rann upp. Tónlistin ómaði, kertin leiftruðu, hungrið faldi sig og skríkir barna fullkomnuðu samkvæmið.

  Á sjúskuðu teppi lá lítill drengur og teiknaði í nýja stílabók með jólasveinablýöntum sem voru nýyddaðir. Jólasveinninn gleymdi honum bara einu sinni í ár. Litli drengurinn maulaði á heimabökuðum piparkökum með kaldri mjólk. Hann hafði fengið nýja úlpu og ný náttföt í jólagjöf frá mömmu. Hún hafði líka prjónað handa honum græna lopasokka í stígvélin, honum yrði ekki kalt lengur.

  Í sófanum leið niður kinn úrvinda móður lítið tregafullt tár úttroðið af þakklæti til ókunnugs.

                                                    

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband