Bara mamma á föstudegi

Heil og sæl.

Það má segja að á hverjum degi ætla ég mér að setjast við tölvuna þegar stelpurnar eru sofnaðar og hripa niður eins og nokkur merkisatriði úr liðnum degi með annasömum skvísum. Það vill nú bara þannig til að þegar klukkan er orðin níu hérna á Spáni og stúlkurnar loksins sofnaðar þá er allt hugmyndaflug í hausnum á mér farið í frí og ég gapi á blikkandi bendilinn í word skjalinu og ekkert verður úr neinu. Nú ákvað ég bara að setjast niður eitt augnablik áður en þær fara í háttinn og athuga hvað yrði úr, ég tek fulla ábyrgð á þessari færslu sem ef til vill gæti reynst vera frekar mömmuleg og venjuleg, en hvað um það.

í dag er föstudagur, minn uppáhaldsdagur. Ég geri mér nú yfirleitt glaðan dag á föstudögum og fer og fæ mér Croissant með skinku og osti og rjúkandi nýmalaðan kaffibolla á kaffihúsi. Horfi á mannlífið og læt mig dreyma áður en dagurinn heldur áfram. En.... Mamman fór ekkert í ræktina í síðustu viku þannig að það var vel tekið á því í þessari. Nema hvað, fer í fjórða tímann í gær og viti menn, ég leggst á dýnuna til þess að gera magaæfingar og allt hringsnerist. Svimi og flökurleiki. Þetta gat náttúrulega ekki gerst í tíma hjá vinkonu minni þar sem ég gæti sest niður...nei það gerist ekki í mínum veruleika. Ég var í tíma hjá harðasta þjálfaranum sem lætur þig heyra það ef þú svo mikið sem færð þér vatnssopa of snemma. Hann lítur út eins og Mr. Proper og Jón Páll heitinn.

 Nú Meyjan ákvað að herða sig upp og rumpa þessum magaæfingum af þótt allt væri í 360 gráðum í hausnum á mér. Ekki nóg með það heldur vara ég bitastætt fórnarlamb þjálfarans til þess að sýna hópnum hvernig ætti EKKI að gera æfingarnar og varð fórnarlamb sýnikennslu. Ég veit ekki hvernig ég fór að en ég kláraði tímann, hljóp út og settist niður á gólfið í bílakjallaranum, langt frá þjálfaranum. Náði áttum og rétt náði að sveigja hjá súlunni fyrir aftan mig þegar ég bakkaði út. Þannig að, það var farið beint heim, heit sturta og vöðvaslakandi tafla. Ég tek nú ekki oft inn þannig töflur þannig að ég rétt náði að skvera stelpurnar af í náttföt, jógúrt í kvöldmat og upp í rúm. Þar á eftir rotaðist ég með Ipadinn ofan á mér og vaknaði við eiginmanninn þegar hann var að reyndi að telja mér trú um að ég væri sofandi sem ég náttúrulega harðneitaði fyrir. Ég var að horfa á mynd í Ipadnum.

Rankaði við mér um 4:00 þegar tveir sveittir litlir kroppar fóru að hnakkrífast um hver væri nær mér. Ég tek það fram að það er hitabylgja hérna í október. Fór upp í 36 stiga hita hérna á miðvikudaginn, ég var því ekkert parhrifin af því að hafa dömurnar límdar við mig. En hvað gerir maður ekki fyrir þessi börn. Ég lagðist á bakið á milli þeirra og tók þær í sitthvorn handarkrikann. Um leið og þær fóru að hrjóta smeygði ég mér við illan leik úr rúminu og í rúm eldri dótturinnar. Prísaði mig sæla með allt þetta rými, tek það fram að rúmið er 90cm á breidd. Kortéri seinna stóðu tvær litlar furðuverur við rúmstokkinn og vildu koma upp í. Tek það aftur fram að rúmið er 90cm á breidd. Eitthvað hef ég verið dópuð af þessarri litlu töflu en ég skellti þeim upp í og aftur hrutu þær á meðan ég taldi upp það sem þyrfti að gera daginn eftir, eftir nokkra klukkutíma. Ég öfundaði eiginmanninn af 170 cm rúminu sem hann var nú einn með..... Þannig að, stúlkurnar hressar og kátar skokkuðu í skólann með úthvíldum pabba sínum og mamman endaði í sófanum og ekkert kaffihúsastopp á þessum fagra föstudegi.

Dagurinn var samt ekki svo slæmur, það getur verið gott að gleyma sér einstaka sinnum og leyfa sér bara að vera LATUR. Það gerir ekkert til þótt að húsið verði ryksugað eftir hádegi eða þvotturinn sé hálftíma lengur í þurrkaranum. Í alvöru það kom mér líka á óvart...en það gerist ekkert.....

Seinni hluti dagsins var byrjaður með stæl, mamman búin að drýgja töflunna eins og hún mögulega gat í sófanum og nokkuð spök. Stelpur sóttar, hollur matur og heimavinna. Sundnámskeið og hvað svo.... Það var tvennt í boði. Rólo sem ég hef andstyggð af og lít á það eins og skylduverkefni sem hægt er að stroka út af TO DO listanum. Sem sagt róló eða verslunarmiðstöð....ég var ekki lengi að ákveða mig og við lögðum í leiðangur. Var svo innilega heppin að ég þurfti að kaupa ýmislegt fyrir veturinn. Við göngum inn í risastóra búð og förum upp á fyrstu hæð. Þetta var ekki alveg þaulhugsað þar sem við neyddumst til að ganga í gegnum dótadeildina sem var bye the way búið að stækka í tilefni jólanna og 35% afsláttur yfir helgina. Mínar misstu sig og ég yfirveguð sagði þeim að velja það sem þeim langaði í jólagjöf og ég skyldi taka mynd og senda ömmu þeirra. Þar sem sú stutta á það til að tapa sér á svona stöðum var ég nokkuð hress með að hún var sallaróleg með þessa lausn. Þannig að mamman gekk um alla búðina og smellti af myndum hægri vinstri.

Loksins komust við í gegnum dótadeildina og í fatadeildina. Ég klappaði mér á bakið fyrir að hafa leyst suðkrísuna eins og sannkallaður snillingur þegar sú stutta kallar mamma, mamma. Ég lít við og sé hana í ungbarnadeildinni. Hún heldur á ljósbleikum útigalla og brosir út að eyrum. "Mamma ég vil fá lítið barn". Hún er mikið í þessum gír þessa dagana og suðar um lítið barn eins og hvert annað barn suðar um Barbie dúkku. Ég tek af henni gallann og hengi hann á réttan stað. "komdu elskan, við erum að fara." Ég ákvað að reyna að smeygja mér út úr búðinni áður en nautið mitt færi að gjósa. En það er of seint. Hún hendir sér í gólfið og bendir á öll ungabörn sem voru með mæðrum sínum í búðinni. "Sjáðu mamma, hún á barn og hún líka, ég vil lítið barn". Ja há.....svona fór um búðarferð þá. Það kemur sér ágætlega að börnin mín tali annað tungumál við mig því það var litið á mig úr öllum áttum en enginn skyldi neitt, sem var kannski ekkert betra. Ekki algengt að 4 ára gamalt barn suði um bleikan útigalla og bendi á lítil börn.... en ég náði henni út. Hún grenjaði alla leiðina heim og taldi upp þá vini sem eiga lítið barn heima hjá sér. Að lokum segir sú stutta:

" Mamma þetta er ekki sanngjarnt. Ég má ekki fá Iphone en þú átt tvo, ég má ekki fá tölvu en þú átt tvær ölvur, ég má ekki fá Ipad og þú átt Ipad og ég má ekki fá lítið barn og þú átt tvö......"

 Það er nú aldrei lognmolla á þessu litla heimili mínu og ég sit eftir á föstudagskvöldi með rauðvínsglas og spyr mig af hverju enginn gefi út leiðarvísisbók um hvernig mömmuhlutverkið er í raun og veru....... 

  tired-mom

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband