Hversdagsleikinn er furðuverk

Jæja, það er nú frekar langt síðan ég skrifaði síðast en mér fannst bara ekkert búið að gerast til þess að segja frá. Þegar ég fór svo að horfa yfir síðustu daga þá var margt og mikið búið að gerast. Ótrúlegt hvað okkur finnst stundum hversdagsleikinn ekki skipta svo miklu máli en í rauninni er hann stórmerkilegur. 

Nú vikan byrjaði á því að Meyjan ákvað að nú væri komið að því að mála íbúðina. Þar sem eiginmaðurinn er frekar laus við þá var hann settur í verkið. Honum er mikið til listanna lagt og hann færi nú létt með að mála eins og eina litla íbúð....hefði maður haldið.... Mamman gekk um götur og rólóvelli allan mánudaginn eftir skóla, fór á McDonalds, stúlkunum til mikillar gleði, og í IKEA til þess að leyfa eiginmanninum að vera í friði að mála. Mér fannst þetta snilld að vera í burtu svo hann myndi nú rumpa þessu af....EN..... Mamman treinaði til 19:30 með dömurnar á vappi og ákvað þá að fara heim og byrja að skreyta nýmálaða veggi með nýjum myndum og gardínum. Við göngum inn og þar er sá myndarlegi að ryksuga. Frábært hann þrífur og allt eftir sig. Meyjan fer nú að líta í kringum sig og bregður heldur en ekki í brún þegar hún sér að flest allir veggirnir eru blettóttir, keypti ég vitlausa málningu? Nú, ég spyr kurteisislega af hverju málningin sé svona og fæ þá það svar að þetta sé ekki búið að mála. Við erum að tala um flest alla veggi í íbúðinni. Hvað er búið að mála? spyr ég eins yfirvegað og ég get mögulega tamið mér og fæ þá það svar að það sé búið að mála forstofuna sem er bye the way 2 fermetrar..... Nú átti meyjan virkilega erfitt með sig...ekkert hægt að laga til, allt í drasli og málningarslettur á öllu parketinu. Eiginmaðurinn horfir skelkaður á mig og segir ljúft að hann hafi þó ryksugað alla íbúðina. Ég get svarið það að þarna átti ég ekki mínar bestu stundir, ég viðurkenni það að ég er ekki stolt af þessu en ég snappaði (pínu). Maður rumpar nú af einni helvítis íbúð segi ég og hrifsa upp nýhreinsaða málningarúlluna og dýfi henni ofan í málninguna og á vegginn. Plass....svona bara upp og niður....Í fljótfærni áttaði ég mig ekki á því að ég var að nota óblandaða málningu sem gerði ekkert nema skilja eftir þykkja slykju á veggnum. Ég hendi frá mér rúllunni og stíg óvart á blett sem hafði lekið á gólfið og skil eftir mig málningarslóð alla leið út á verönd þar sem ég hélt að það væri kannski við hæfi að fá sér smá ferskt loft. Inn í íbúðinni standa börnin mín "þrjú" og hlæja af mér...mér var ekki skemmt..

Nú en hvað um það vikan slygaðist áfram og þetta var ekki að ganga nógu hratt fyrir meyjuna þannig að nú er búið að mála helminginn og það kemur málari í næstu viku og málið er dautt. Man það næst að sumum er bara ekki ætlað að mála....ég meðtalin.

Hjónin eru að fara út að skemmta sér í kvöld. Barnapían kemur í fyrra lagi þar sem við eigum að vera mætt á staðinn klukkan 20:00. Ég strunsa með stelpurnar á sundæfingu, fer í búðina og ákveð að skjótast á veitingastaðinn sem brúðkaupið var haldið til þess að fá myndir sem þau tóku af þessum fallega degi. Þar sem það er hátt í 30 stiga hiti ákveð ég að nota sumarfötin og dressa mig upp fyrir föstudaginn í hælaskó og lekkerheit. Við göngum upp að veitingastaðnum sem er á golfvelli og ég furða mig á öllu þessu fína fólki sem er að spila gólf. Allt í einu mistíg ég mig svona svakalega nema hvað ég átta mig á því að botninn af einum fína hælaskónum er bara alveg farinn.

Ég skakklappast áfram út í bíl með dætur mínar flissandi á eftir mér. Fólk horfir á furðulegt göngulag mitt og ég reyni að labba á tánni á hælalausa skónum sem gerir bara illt verra. Ég anda djúpt þegar ég er komin út í bíl og ákveð að drífa mig heim að gera mig sæta fyrir kvöldið. Við erum að fara á einka vínsmökkun út í sveit. Ég er nú ekki mikil drykkjumanneskja og hvað þá þegar þarf að keyra langar leiðir. Nú er búið að taka inn Lórítín og magatöflur til þess að vera eins fersk og ég mögulega get. Spurning um hvernig dagurinn á morgun verður.....

En svona getur hversdagsleikinn verið skemmtilegur...

Heyrumst. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband