Eflum hugann.

Sælan og ljúfan sunnudag. 

Eftir spítaladvöl með litla krúttið mitt, afmælisdag að halda á ælubala og tvær nætur í óþægilegum sjúkrahússófa með lak til að breiða yfir mig þá erum við mægður loksins komnar heim. Við héldum upp á afmæli mömmunnar á ströndinni og litla dúllan mín borðaði fisk eins og hún hefði ekki fengið að borða í viku sem hún í rauninni hefur ekki gert. Sólin skein og systurnar léku sér í friðsemd. Þótt sunnudagar fari yfirleitt í taugarnar á mér þá var þessi bara nokkuð góður.  

Þar sem ég hef sett mér það markmið að ljúka nokkrum áramótaheitum á næstu mánuðum þá ákvað ég að skrá mig á námskeið online í að efla hugann. Námskeiðið er á alveg brillant síðu sem er hér á Spáni. Þar geturðu farið á námskeið í næstum öllu, frítt og frá ýmsum háskólum á Spáni. Ég skráði mig á tvö. Eflum hugann og í núvitund, af því meyjan er að skoða nýja hluti.  í dag var svo lærdómur í eflum hugann. Þar var tekið fyrir, mér til mikillar gleði, að það skipti engu máli hversu gömul við erum, við getum alltaf lært meira. Engar afsakanir um að láta drauma sína ekki rætast vegna þess að okkur finnst kannski hallærislegt að reyna við þá komin á þennan og hinn aldurinn. Eins og brilliant vinkona mín segir alltaf að hún reynir að læra um allt á milli himins og jarðar til þess að verða hreinlega ekki leiðinleg. Mikið til í þessu skal ég segja ykkur. 

Ef við lokum augunum og spyrjum okkur hvað við erum gömul hvað segir hugurinn okkur? Kennitala og afmælisdagur segja okkur eitt en hvað segir hugurinn? Ég er allavega enn 25, það finnst mér allavega en ykkur? Við þrælum okkur út í ræktinni, kaupum dýrustu rakakremin til þess að halda húðinni ungri og líflegri, eyðum morðfjár í litun og klippingu á ári og lesum allt sem gæti gefið til kynna hvað er hægt að gera til þess að líta vel út er það ekki? En þjálfum við hugann nógu oft, hann er jú líka vöðvi? Nú í þessu námskeiði kom farm að við getum komið í veg fyrir ellimerki með því að þjálfa hugann. Meyjan ætlar nú að taka á þessu með stæl en ekki hvað. Er virkilega eitthvað slæmt við að hugleiða eða gefa okkur tíma í að hugsa um hvað við notum þennan furðulega vöðva í? Oft finnst mér fylgja þessu vissir fordómar og mörgum finnst þetta hallærislega mikil fyrirhöfn að sitja og hugleiða. Ég hef að vísu aldrei náð að hugleiða, er alltaf farin að telja upp hvað ég þurfi að gera eftir hádegi eða reyni að muna uppskriftina af súpunni sem ég ætla að gera í kvöld. En eins og með allt annað þarf að æfa og þjálfa hugann eins og líkamann. Þannig að nú er meyjan farin að prufa hugleiðslu. Það er náttúrlega gert á þann eina veg sem meyjan kann og búið er að gera playlista á Spotify með möntrum og yfirvegaðri arabískri tónlist sem hljómar ekki pirrandi. Ég gerði þá fyrstu í dag og ég gat verið kyrr í heila mínútu. Kannski ekki til þess að klappa fyrir en ég reyni bara betur á morgun. Get ekki sagt að ég hafi fengið mikið út úr þessu en af hverju líður flestum sem gera þetta að staðaldri svona vel. Er þetta fólk bara að leika það eða er kannski eitthvað til í þessu. Allavega verður reynt aftur á morgun, hver veit. 

 Kemur það ekki fyrir ykkur að við setjum okkur markmið og gefumst upp áður en við höfum reynt? Þetta er nú kannski ekki mjög tengt þræðinum í þessu bloggi en ég sem "bara mamma" síðustu 7 árin hef gert mér grein fyrir því að ég hef lagt margt til hliðar með allskyns afsökunum um að ég geri þetta á næsta ári, eða þegar stelpurnar eru orðnar stærri, þá hef ég meiri tíma fyrir mig. Þetta er bara bull og vitleysa og afsakanir til þess að smeygja sér ekki of langt út fyrir þægindahringinn. Ekki halda að þótt ég hafi gert mér grein fyrir öllu þessu að ég hafi tekið stökkið, nei, meyjan er enn að leita af afsökunum og ein af þeim er oft "ég er orðin 37 ára, hvernig á ég að fara að því að gera þetta með tvö börn og orðin þetta gömul". Málið er að eftir þetta langan tíma í þessu volæði og sjálfsvorkunn kemur að því að hugur og hjarta gefast upp á þér og segja hingað og ekki lengra. Nú þarf ég að gera eitthvað í þessum málum. Þannig að á morgun verður hugleitt aftur, kannski í 1:20, svo er það leiklistarnámskeiðið í næstu viku og er svo enn að leita mér að námskeiði í Ítölsku sem var eitt af áramótaheitunum. Sum hver verða að bíða fram á næsta ár en ég á allavega bara 6 eftir, það er ekki svo slæmt.

Að lokum vil ég skora á ykkur að setja ykkur markmið, setja á ykkur hlaupaskóna og skjótast af stað í áttina. Það er ekkert sem fullkomnar mann eins og að ná takmarki sínu, þótt við höldum þeim bara fyrir okkur þá er það sigur að sigrast á efanum og afsökunum.

Heyrumst og namaste!!! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband