Pöddupanik....

Heil og sæl veriði öll sömul.

Já það er nokkuð langt frá síðustu færslu en ég gat ekki hamið mig að segja frá meyjunni og pöddupanikinu sem fylgir henni.

Dagurinn var yndislegur í alla staði. Húsið þrifið í morgun með sól í hjarta og tilhlökkun að vera að fara til Íslands eftir um 10 daga. Skroppið var í búð og verslað inn fyrir helgina, farið á kaffihús með vinkonu og spjallað um ferð í Disney....

Því næst lallaði meyjan heim og eldaði mat handa ungunum sínum sem komu heim úr skólnum um tvö og aldrei þessu vant var ekki pirringur, rifrildi eða heimsendir yfir matnum sem ég eldaði. 

Allir saddir og sælir smjöttuðu á ís eftir matinn og svo var skellt sér í sund. 

Það er nú föstudagur og um að gera að nota sólinni þannig að meyjan dreif alla familíuna á veitingastað og fékk sér ískaldan bjór á meðan dömurnar hjólaskautuðu á aðalgötunni í bænum sem var lokuð í klukkutíma af lögreglu til að krakkar gætu rúntað hana fram og tilbaka á hjólaskautum. Því næst bættust góðvinir í hópinn og um 22:00 var ég á leið heim með mín kríli og kríli vinanna. Fjórir hlæjandi skrípalingar liðuðust inn um útidyrnar og pizzu skellt í ofninn. 

Þá byrjaði stuðið....meyjan fór út að hengja upp sundfötin og viti menn......svört stór padda sem í mínum huga var ekkert annað en KAKKALAKKI hljóp eins og fætur toguðu eftir gólfinu á veröndinni minni. Fallegu veröndinni minni þar sem ég fæ mér juratte og rauðvín í síðdegisbirtunni á Spáni. Taugaveiklun er veikt orð yfir atburðarásinna sem fylgdi hjá meyjunni við mikil hlátrasköll frá fjórum ungum kroppum, þar á meðal hugrakkur 10 ára strákur sem tók sig til og fór út að drepa skepnuna.....

Þar stöðvaðist ekki panikið...ó nei...meyjan er nú ekki þekkt fyrir að slaka bara á og bíða eftir næstu pöddu.... mikil upplýsingavinna hófst á netinu, hvernig væri hægt að drepa kakkalakkaPLÁGU....af því jú það var sko heill EINN kakkalakki, sama sem PLÁGA í mínum huga.... Eftir 101 ráð og milljón skilaboð til eiginmannsins sem var að reyna að klára að mála í vinnunni sinni var heimtað að hann kæmi heim að bjarga eiginkonunni frá dauða andstyggilega kakkalakkanum sem lá með fætur upp í loft út á verönd. 

Meyjan tók sig nú til á meðan beðið var eftir eiginmanninum og þreif allt hátt og lágt, inn í skápa og öllum niðurföllum lokað. Krakkarnir kvörtuðu yfir hita inn í lokaðri íbúð í 27 stiga hita en NEI það mátti ekki opna neina hurð.....hann gæti lifnað við.....

Ryksugað var alla skápa, hent opnum matvörum, bækur dustaðar (þeir gætu verið á milli blaðsíðna) og sprautað eitri inn í allar glufur sem fyrir finnast í íbúðinni.....Loksins kom karlinn heim og lallaði út á verönd þar sem ég lokaði hann úti með dauða kakkanum og beið.....

Hann snéri sér við með fægiskófluna og hristi hausinn.....

Þetta var svört KRYBBA....paddann sem kemur fljúgandi og gerir þetta hljóð sem við heyrum alltaf á kvöldin í útlöndum....

Meyjan andaði léttar, það var kannski ekki alveg plága á heimilinu, en hurðir og gluggar eru enn lokaðir..

 

Takk takk og góða nótt..


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband