Ferðatöskukrísa

Góðan og blessaðan föstudag gott fólk.

Ég elska föstudaga, hef alltaf gert. Það er eitthvað við þessa daga. Allir eru eitthvað svo jákvæðir, í góðu skapi og með tilhlökkun í hjarta. Föstudagar eru eins og nokkurs konar Þorláksmessa, uppáhaldsdagurinn minn á árinu. Á föstudögum byrjar helgin og þá má maður svindla á einfaldlega öllu. Engin vekjaraklukka, nammi  með góðri bíómynd og börnin frjáls með vinum sínum. Eflaust segja nú einhverjir að maður eigi bara að halda sínu heilsustriki líka um helgar en ekki ég, ég leyfi mér allt. Hef alltaf verið þekkt fyrir að eiga nammiskáp og nammidag.

Fyrir rúmlega áratug. Já gott fólk áratug, var föstudagurinn nýttur í að versla dress á Spáni fyrir helgina. Hringjast á og leggja á ráðin með föstudags- og laugardagskvöldin, já bæði kvöldin og fór létt með það. í dag er ég viku að jafna mig eftir saumaklúbb á föstudegi, gamla góða alveg með þetta. Núna eru það jogging buxurnar og hárbandið, mjúka teppið og rauðvínsglasið, kornamaskinn og kósýsokkar. Ekki spillir að eiga eins og eina rómantíska mynd sem bíður eftir manni, eða tvo þætti af Scandal sem á eftir að horfa á. Love it. Í kvöld er það Orange is the New black og ef ég verð ekki sofnuð fyrir ellefu á undan frumburðinum þá skelli ég Begin Again í Ipadinn og dotta yfir henni. Lofar mjög góðu, læt ykkur vita hvernig fer.

Föstudagar eru hálfgerður helgidagur hjá mér, ég þríf ekki, elda ekki, set ekki í þvottavél, brýt ekki saman þvott eða dríf mig í að skrúbba rykugar strimlagardínurnar í stofunni. Aftur á móti er ég mjög á móti sunnudögum og líki þeim við Nýársdag sem er bye the way leiðinlegasti dagur ársins að mínu mati, veit ekki ástæðuna nema þá að mér finnst hann vera eilífur sunnudagur, jólin búin og langir mánuðir að byrja. Kannski er ég bara svona mikið jólabarn þrátt fyrir að vera að nálgast fertugt, ég á enn 3 ár og 6 daga eftir í þann áfanga.

 En ég byrjaði nú að blogga í dag til þess að tala um aðra hluti en föstudagana.

Tveir dagar eftir á klakanum í bili. Ótrúlegt hvað tíminn líður. Ég minni mig á að annað ár sé liðið og ég hafi ekki enn komið öllu í verk sem ég ætlaði að vera búin að gera síðan síðasta sumar. Kíki á litla minnisblaðið sem ég skrifa um hver áramót, á eftir að koma í verk nokkrum af heitunum mínum fyrir 2014 og bara tæpir 4 mánuðir til stefnu. 

Stefnan er tekin aftur til Spánar á sunnudagsmorgun klukkan 7:45 þannig að ég þarf að vakna um 4:30 á sunnudagsnótt. Yngri dóttirin hefur vinsamlegast beðið ömmu sína um að fá eitt herbergi hjá henni á meðan foreldrar hennar og eldri systir fari til Spánar. Hún er ekkert á leiðinni með, það þarf að tækla nautið fyrir sunnudaginn. En talandi um ferðalög, ansans ferðatöskudramað sem maður lendir alltaf í, ég allavega. Tók alltof mikið með mér og er ekki búin að nota helminginn af fötunum sem ég kom með. Samt dröslast ég með eina tösku á mann, fjórar í heildina í fjögur flug. Hef nú verið að ferðast í 15 ár til Íslands, en erfitt það er víst erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Ég tók þetta saman um daginn og brá heldur betur í brún þegar ég áttaði mig á því að ég borga hvorki meira né minna en rúmar 54.000 krónur í ferðatöskukostnað í einni ferð til Íslands. Hvað er maður að spá. Allt sem ég gæti keypt mér fyrir þennan pening. 

Í hverri ferð ætla ég mér að skilja eitthvað eftir svo ég þurfi ekki að koma með svona svakalega mikið næst en stend svo alltaf með fjórar útsprengdar ferðatöskur upp á flugvelli og furða mig á því hvernig þetta hafi gerst, 54.000 í ferðatöskukostnað. Eiginmaðurinn hlær í laumi og hristir hausinn þegar hann rogast með fjórar ferðatöskur og þrjár í handfarangri. Svo eru það töskurnar fyrir stelpurnar, dúkkur og aðrir fylgihlutir sem bara verða að fara með í ferðalagið til Íslands. Lággjaldaflugfélög eru kannski ódýrari en hin en ég held í rauninni að þetta sé mjög svipað þegar allt er tekið til. Ferðatöskur, matur, þægindi og annað. Ég ferðast yfirleitt með þeim flugfélögum sem bjóða best á þeim tíma sem ég þarf að ferðast en kemst ekki hjá þeirri tilfinningu að finnast ég vera komin heim þegar ég geng um borð í Icelandair vél og þar er ég ekki að borga neitt extra gjald fyrir ferðatöskuna, alveg snilld fyrir samviskuna.

Nú jæja þar sem ég er meyja fyrir allan peninginn er ég vön að pakka viku fyrir brottför, ég meina maður veit aldrei. Kannski hringir Icelandair og þarf að flýta ferðinni eða þannig. Allavega þá eru tveir dagar til stefnu og ég er ekki enn búin að pakka "öllu" er samt byrjuð sko. Er þetta þroskamerki eða bara meyjarleti? Ég næ í ferðatöskurnar fjórar og átta mig á því að ég þarf bara þrjár. Er samt búin að kaupa fjórar töskur þannig að ég verð víst að fara út í búð og fylla á nammiskápinn út á Spáni, eða hvað finnst ykkur?

Enda með því að versla nammi, harðfisk og osta fyrir morðfjár og fylli tösku númer 4. Nú er ég búin að spreða í varning í fjórðu töskuna. Ég er alveg búin að sætta mig við það að ég kann ekki að ferðast létt.

Góða helgi flotta fólk

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband