Mánudagur til mæðu

Óþægilegt og pirrandi píp heyrist í fjarska og rænir mér úr yndislegum draumum sunnudagskvöldsins, dregur mig aftur inn í raunveruleikann og minnir  á að það er tími til að koma sér fram úr. Eftir að hafa kraflað sig í gegnum litlar hendur og fætur sem eru vafðar utan um mig næ ég í rassgatið á símanum sem víbrar á náttborðinu og snúsa hann. Tíu mínútur í viðbót gerir nú ekki mikið til. Ótrúlegt hvað þessar tíu mínútur eru fljótar að líða. Af hverju er tíminn alltaf svo lengi að líða þegar maður er að gera eitthvað sem maður vildi helst ljúka af sem fyrst. Aldrei líður tíminn hægar þegar maður þarf virkilega á fleiri mínútum að halda eða bara langar einfaldlega í mínútu með 100 sekúndum. Ég er eflaust ekki ein um þessa ósk.

Síminn vælir aftur, tíu mínúturnar eru búnar og ekki í boði að snúsa símann einu sinni enn því þá fer allt í panik. Ég drattast fram úr og vek mjúka og heita kroppa sem kúra sig vært í sængina og breiða yfir haus. Eftir nokkur köll er tónninn hækkaður og þær draga á eftir sér lappirnar í sófann. Fyrsta takmarki morgunsins er náð. Nú þarf að forgangsraða. Fötin eru ekki tilbúin þar sem ég ætlaði að vakna snemma og hélt að ég hefði nægan tíma. Nú er klukkan orðin 7:20 og við erum enn með úfið hár og í náttfötum. Karlinn er rekinn á fætur og beðinn um að klæða yngri skvísuna. Sú eldri á að sjá um sig sjálf á meðan ég hendi mér í snögga sturtu. Úr sturtinni sendi ég skilaboð um hvað eigi að gera næst og hvernig gangi þarna frammi. Ég rek mig í hornið á baðborðinu og blóta því í sand og ösku um leið og eldri dóttirin kemur inn að pissa, enn í náttfötum og kvartar um að henni sé kalt.

Pirringurinn er að ná yfirhöndinni og ég fer í sturtu á mettíma, er ábyggilega enn með hárnæringu í hárinu þegar ég hálfblæs það og skil eftir stóran lokk að aftan enn blautan. Skelli mér í fötin og fer fram í stofu. Sú yngsta er komin í fötin en farin að borða jógúrt og búin að sulla niður á allan bolinn. Ég hleyp til, næ í nýjan og mata hana af restinni af jógúrtinu til að flýta fyrir. Sú eldri er enn að fara í sokkana, bara komin í annan. Ég hendi jógúrtinu í ruslið, skelli skvísunni í nýjan bol og fer svo eins og rispuð plata, tautandi, að koma þeirri eldri í fötin. Hún byrjar að kvarta yfir því að fá ekki að vera í kjól og um leið og hún nefnir kjól fer sú yngri (sem er naut bye the way)  að klæða sig úr fötunum sem tók allan þennan tíma að koma henni í. Hún ætlar í kjól líka. ARRRGGGGG ég er að bilast. Á ég að öskra, anda djúpt eða lúffa og setja þær báðar í kjól. Nei, mamman á ekki að leyfa þeim að komast upp með allt, uppeldisráðin úr öllum bókunum sem ég hef lesið ryðjast að og gera mér ekkert auðveldara fyrir þegar ég klæði þá yngri aftur í sömu fötin öskrandi eins og æstur grís.

7:45 og þær eru báðar komnar í föt, úff það tókst. Ég teymi þær inn á bað og skelli í tvö tögl við mótmæli, auðvitað. Ein vill Frosen fléttu og hin vill hliðartagl. Til þess að krydda aðstæður aðeins fara þær að hnakkrífast um hver sé Elsa, báðar vilja vera Elsa. Sem ég skil ekki því Anna er miklu flottari týpa en hvað veit mamman. Ég reyni að sætta málin og segi þeim að þær geti verið báðar Elsa. Virkar ekki. Ég held þolinmæðinni eins og uppeldisráðin segja og útskýri rólega með annað augað á klukkunni að ein sé litla Elsa og hin stóra Elsa, þær hálfsættast. Tannburstarnir eru rifnir upp úr glasinu á baðborðinu, tannkreminu klínt á og upp í munn. Ég myndi tannbursta þær báðar í einu ef ég þyrfti ekki að halda þeim kyrrum þar sem þær gera ekkert annað en að reyna að tala við hvor aðra með gapandi tannkremsfroðumunn. Þær skola og ég lít á klukkuna, hún er 7:55, ég hef tíu mínútur til þess að mála mig og koma okkur út í bíl. 

Förðunarráðin fljúga út um gluggann og ég maka á mig BB kreminu með puttunum, smá púður yfir og bólufelara yfir stressbólurnar. Maskari og gloss og Voila búið. 

Sú eldri kvartar um svengt. Guð minn góður ég kem alltof seint. Ég gríp jógúrt úr ísskápnum, skelli röri í það og sendi hana í stígvélum út í bíl með jógúrtið. Þarna sló ég tvær flugur í einu höggi. Fleygi úlpunni á þá yngri sem stendur í krummafót og suðar um að fara með bangsa á leikskólann. Af þeim milljón böngsum sem hún á þá þarf hún að vara með bleika grísinn í dag og hann finnst hvergi. Ég leita undir rúmi og ofan í dótakassanum á milljón og loksins finnst hann ofan í óhreinatauinu en fær samt að fljóta með á leikskólann. 

Klukkan er 8:00 og ég er lögð af stað. Ég næ þessu. Þeirri yngri er liggur við fleygt inn á deild á leikskólanum og rokið út. klukkan 8.08 göngum við mæðgur inn í skólann. Sem betur fer vinn ég á sama stað þannig að... Ég kveð hana og rík upp á kaffistofu svo ég geti náð mér í einn kaffibolla fyrir tíma. Rjúkandi heitt kaffið vekur mig og ég minni mig á að á morgun verði ég að stilla vekjaraklukkuna aðeins fyrr. Ég man samt óljóst að það var einmitt það sem ég ætlaði að gera í morgun.

Mánudagur til mæðu, já kannski bara.......  

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband