Ljósanætursverð

Jæja góðan og blessaðan daginn gott fólk. Eru ekki allir með ljós í hjarta og tilhlökkun til árgangagöngu og ljósastauravígslu. Mamman fór að hitta hinar mömmurnar í gær eftir taugveikliskast dætrana um að mamman væri að fara út tvö kvöld í röð. Ég velti því fyrir mér hvað það væri sem þær sækjast svona eftir að hafa mig heima þegar maður er endalaust í uppeldispakkanum á meðan pabbinn er eins og besti frændi sem gefur leyfi fyrir nammi á fimmtudagskvöldi og bíómynd til tíu þótt það sé skóli daginn eftir en hvað um það, sú eldri þurfti nærri því að anda í poka þegar mamman fór í skóna. Að lokum mætum við 37 ára skvísurnar á Veitingstaðinn sem er tiltölulega nýr í litla bænum okkar og við spenntar að prufa. Við fengum sérstakan matseðil af því það var Ljósanótt og allt í góðu með það nema í forrétti var hægt að fá krækling, fiskisúpu eða andabringu. Mín var nú ekki spennt fyrir þessum kostum, enda ekki fyrir alla býst ég við,  og spurði kurteist hvort það væri ekki hægt að fá kjúklingasalatið sem er á aðalmatseðlinum. Jú, jú það var gert eftir að þjónustustúlkan spurði yfirvaldið. 

Maturinn kom og bjórinn og hvítvínið og við skemmtum okkur konunglega. Mikill hlátur og smjatt á góðum mat. Svo kom að því að borga... nú meyjan (ég) stóð fyrst upp og fór að borga við afgreiðsluborðið og brá heldur betur í brún þegar reikningurinn hljóðaði upp á aðeins meira en áætlað hafði verið. Ég spurði pent hvað kjúklingasalatið kostaði og var þá svarað að það kostaði 4000 krónur. Ég lyfti upp hökunni sem féll rólega í átt að gólfi og taldi upp á tíu áður en ég spurði af hverju það væri þegar sama salat hefði kostað 2700 í síðustu viku. Svarið sem ég fékk átti ég alls ekki von á en unga þjónustustúlkan svaraði að þetta væri Ljósanætursverð á öllum aðalréttum. Nú féll hakan alveg niður í gólf og réttlætiskenndin tók yfir öll völd. Ég harðneitaði að láta klekkja svona auðveldlega á mér og neitaði hreinlega að borga þetta verð. Þjónustustúlkan skoppaði á bakvið og kom tilbaka með svar um að ég gæti fengið að borga 2700 fyrir salatið. Ég meina voða gott salat og allt það en come on. Á meðan allir eru að gefa hvítvín og rauðvín hægri vinstri, bjóða upp á ýmsa afslætti og annað slíkt í tilefni Ljósanætur sem ég er mikill áhugamaður um þá tekur veitingahúsið upp á því að hækka rétti sína og skýla sér á bakvið þá ástæðu að það sé vegna Ljósanætur.

Nú jæja mamman lét þetta nú ekki skemma kvöldið og borgaði. Ég tek það fram að maturinn var mjög góður en svona skilur eftir sig. Ég ætla nú ekki að hallmæla neinum á þessum veitingastað því matur og þjónusta voru til fyrirmyndar. Við fengum okkur mismunandi rétti og þeir voru mjög góðir allir en ég get ekki litið framhjá þeirra staðreynd að reynt sé að skýla sér á bakvið fáránleg rök til þess að græða meira á viðskiptavininum.

Kvöldið endaði heima í hlýju rúmi með tvær lifandi sængur ofan á mér. Ein mjög hlý og þung 7 ára gömul og önnur 4 ára sem átti erfitt með að vera kyrr.

Heyrumst næst :) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er alltaf gott að fá gagnrýni. En það er misgott eins og gengur og gerist. Það er hinsvegar leiðigjarnt þegar fólk fer með rangfærslur.

Í gær fimmtudag var briddaði uppá nýjum matseðli - allir aðalréttirnir voru á kr. 4.000,- Kjúklingasalatið var ekki á matseðlinum og var það "mamman" sem bað sérstakleg um það og var það framreitt sérstaklega fyrir hana. Þegar kom að því að borga var sá misskilningur leiðréttur strax þegar kom í ljós að hún var ekki með rétt af matseðlinum.

Kjúklingasalatið er vel útlátið og alltaf er hrósað fyrir það.

Að ásaka veitingastað að fela sig bak við Ljósanótt til að hækka verð er beinlínis rangt því að réttirnir á matseðlinum eru ódýrari en venjulega.

Með kveðju

Gunnar

Gunnar Ingi Halldórsson (IP-tala skráð) 5.9.2014 kl. 13:26

2 Smámynd: Elva Sif Grétarsdóttir

Sæll Gunnar.

Eins og kom fram í færslunni sem ég set hér inn þá setti ég hvorki út á að illa hefði verið úti látið né að þjónusta hefði verið slæm heldur hrósaði ég því ef eitthvað var. Ég fékk samt þessi svör og var mjög brugðið þar sem ég hef aldrei lent í því að vegna Ljósanæturs sé verð hækkað en það voru svör þjónustustúlkunnar að vegna Ljósanæturs væru allir aðalréttir á 4000 og þar á meðal salatið. Ég tók það líka fram að það hefði verið leiðrétt og ég hafi borgað það verð sem salatið var á í síðustu viku, og ég fór sátt með minn hlut. En ég fékk samt þau svör að salatið kostaði 4000 krónur vegna þess að það væri Ljósanótt og tel ég mig ekki hafa skilið það á ranga vegu. Ég þakkaði fyrir að fá að kaupa kjúklingasalatið þar sem forréttaval var frekar furðulegt að mínu mati og ekki fyrir alla. Í boði var að kaupa þá á 1900 eða aðalrétt á 4000 sem er ansi breitt bil að mínu mati. Ég tek það þó aftur fram að maturinn var mjög góður og var ekki ætlun mín að móðga einn né neinn enda var veitingastaðurinn ekki nafngreindur.

Virðingarfyllst

"mamman"

Elva Sif Grétarsdóttir, 5.9.2014 kl. 15:35

3 identicon

En hvernig er það Gunnar, af hverju er verðið samt svona hátt, er sá sem rekur staðinn með þá menntun sem þarf til sp vera með svona eldhús, er þetta ekki áhugamaður um mat sem þarna stjórnar? Spyr sem ekki veit. 

Bestu kveðjur, Teitur 

Teitur (IP-tala skráð) 5.9.2014 kl. 17:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband