Fyrsta mál á dagskrá....

Sæl veriði. 

Nú er fjölskyldan að ljúka sumardvöl sinni hérna á klakanum og ekki slæmt að enda á Ljósnótt í Reykjanesbæ. Herlegheitin byrja þó á mjög svo gagnrýnin hátt finnst mér þar sem við ættum í rauninni að hugsa um náttúru og gróðurhúsaáhrif, ég meina það er 2014, en samt ár eftir ár tekur bærinn sig til og splæsir í milljón blöðrur og helíum fyrir skóla og leikskóla á svæðinu sem er svo sleppt upp í heiðskíran og fallegan himininn við mikla viðurhöfn og fagnaðarlæti. Stingur í stúf við svo margt sem okkur er ætlað að vera að gera á þessum tímum, enda las ég einhversstaðar að Íslendingar lifa eins og þeir eigi 100 jarðir. Því miður eigum við bara eina. Við þrælum okkur út í að safna dósum, telja þetta allt klístrað og ógeðslegt og dröslast með fleiri poka í endurvinnsluna af því við fáum pening fyrir. En á hálfri mínútu leysum við út í andrúmsloftið heilu kútana af helíum og urmull af plasti. Frekar öfugsnúið.

En í aðra sálma.

Fór að leika extra í bandarískri seríu í gær. Eitt af því sem ég ætlaði mér að gera í leitinni að sjálfri mér enda ekki seinna vænna orðin 37 ára gömul (eftir 14 daga að vísu). Ég mætti upp á Flugstöð ein klukkan 15:00 og beið til 17:00 eftir að rútan með restinni af aukaleikurunum mætti frá Reykjavík. Þá tók við búningaval, en við sem vorum extras fengum nú ekkert stjörnutreatment. Við áttum að koma með þrjú dress og svo var valið úr. Því næst var farið upp í rútu og beðið til 20:00, þá var kallað í okkur inn í flugstöð. Þvílíkt og annað eins líf sem var þar. Mér leið eins og ég væri komin í annan heim, sem ég líklega var. Þar voru ábyggilega um 50 manns hlaupandi um hvern annan, hver einasti maður þarna hafði sitt hlutverk og starf til að sinna og hugsað var um hvert einasta smáatriði. Ég var alveg heilluð. Þarna úði og grúði af adrenalíni, stressi og jákvæðu fólki. Það kom mér á óvart hvað allir voru almennilegir og í góðu skapi eftir um 13 tíma vinnu yfir daginn. Okkur var stillt upp og sekúndubroti áður en byrjað var að taka upp var fólk að flykkjast um hvert annað eins og maurar á leið í þúfuna sína. Við stóðum eins og myndastyttur, þorðum ekki fyrir okkar litla líf að breyta um stöðu svo allt myndi ganga upp. Ég meina maður fer nú ekki að vera með eitthvað vesen þegar maður er bara svona "extra". Eftir að hafa beðið frá 15-20, var farið í tökur í klukkutíma og svo var allt búið. "It´s a rap" og svo var klappað og byrjað að taka til. Senan verður kannski í mesta lagi 3-4 mínútur í sjálfri myndinni en þarna voru komnir um 6 trukkar, missti tölu af sendibílum og fólki. Þetta var mjög spennandi og var algjörlega þess virði að bíða í allan þennan tíma og fá kex og samloku. Ég veit nú ekki hvort þetta er alltaf svona mikið umstang en ég spenntist öll upp og lifði mig inn í aðstæður eins og lítil stelpa í ímynduðum hlutverkaleik. Svona er að vera dramaqueen.....hummmmm.

Jæja segjum þetta gott í bili, mömmuhlutverkið bíður. Sækja á leikskóla, skóla, keyra í fimleika og láta læra....en svo er stelpudinner í kvöld með frábæru vinkonum mínum. Sýningar á Ljósanótt og bæjarrölt í litla sæta bænum mínum.  

Heyrumst 


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband